18.2.06

ísuppskera

Fór á ágætis afþreyingu í bíó, The Ice Harvest. John Cusack og Billy Bob Thornton í formi eins og vanalega. Ramis góður að vanda. Og danska femme fatale-in stendur fyrir sínu.
Nú er ég líklega búin að sjá jafnmargar myndir í bíó á tveimur vikum eins og ég sá á öllu síðasta ári. Fín frammistaða.

Hins vegar erum við hjónin barnlaus og ættum að vera einhvers staðar úti í stórborginni og ljósunum með kokkteil í glasi og dansandi fólk í kringum okkur en sitjum þess í stað, ég við tölvuna og hann yfir fótboltaþætti í sjónvarpinu. Bæði hálflasin ennþá. Frekar svona lamað barnlaust kvöld en samt í alla staði þægilegt.

Horfðum á Marche de l'Empereur í sjónvarpinu áðan sem stóðst nú ekki samanburðinn við bíóferðina, tónlistin allt of tískuleg en samt skemmtileg mynd.
Ég hef alltaf verið svag fyrir mörgæsum. Og sé nú að Kári sonur minn er líklega mörgæsarungi í eðli sínu. Ég hélt alltaf að hann væri að reyna að komast aftur til baka þaðan sem hann kom, en nú sé ég að hann er bara að skýla sér milli fóta mér þegar hann er feiminn eða líður illa. Mörgæs.

Lifið í friði.