kort og einkennisbúningar
Fyrst vil ég koma því að að kortagerðamenn eru góður og þarfur þjóðfélagshópur en þeir ættu að finna sér nýja kortabrotahönnuði. Ég er búin að vera að berjast við að brjóta saman kort í tvo daga og er orðin nett pirruð. Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að hafa þetta einfalt: fyrst í tvennt og svo í tvennt...? Það hefur verið sama manneskja sem ákvað kortabrotin og sú sem ákvað viskustykkja- og handklæðabrotin. Kannski liggur lausnin þar? Hm. Tékka á því á eftir og læt ykkur vita, ef þið hafið áhuga.Hvers vegna ætli það séu til óteljandi senur í kvikmyndum og bókum um fólk sem ofmetnast af örlitlu valdi sem það fær í hendur? Húsverðir, lyftuverðir, tollverðir og fleiri stéttir hafa fengið illa útreið í gegnum tíðina, af nógu er að taka í dæmum en minnisstæðast er mér atriðið í Fargo milli Buschemis og varðarins á bílastæðinu. Snilld. Ef þið munið það ekki er tilvalið að fara og sækja myndina á næstu leigu, þetta er mynd sem hægt er að sjá aftur og aftur. En ég ætlaði ekki að ræða kvikmyndir hér heldur fyrirbrigðið valdahroki litlu valdhafanna.
Það er einföld ástæða fyrir því að margir höfundar hafa fundið þörf hjá sér til að segja frá svona aðstæðum: þetta gerist of oft og það er viðbjóðslega frústrerandi og erfitt að vera fórnarlamb þessara smáu stjóra sem búa sér til litla kúlu, afmarka lítinn heim utan um sitt valdasvæði og leika þar einræðisherra. Þegar maður stendur frammi fyrir þessu fólki, slær það vopnin úr höndum manns með einni setningu: Ég ræð og svona er þetta. Engin rök gilda því við erum föst inni í kúlunni þeirra, föst inni í heimi þar sem eðlileg hegðun og sveigjanleiki hefur verið afmáð og ráðamaðurinn nýtur fulls réttar yfir manni.
Við vinkona mín lentum í tollverði í gær og vorum svo slegnar eftir senuna að við stóðum í miðri örtröðinni á vellinum sem er í stórum viðgerðum og meira en helmingurinn lokaður en flugumferð jafnmikil eftir sem áður, með hjartslátt og tárasviða í augum eins og fimm ára stelpukrakkar. Gersamlega réttlausar og sviknar.
Ókei, ég persónulega get ekki kvartað því ég ætlaði að svindla dálítið og fá skatt endurgreiddan á hlut sem átti að verða eftir í Frakklandi þvert á lögin. En vinkonan hafði keypt vörur sem hún er að fara með heim, HEIM TIL ÍSLANDS, þar sem hún býr og þurfti að sætta sig við það að greiða skatt á dóti sem hún átti fullan rétt á að fá skattfrjálst.
Mér er alveg sama um minn hluta, ég var hvort eð er með bullandi samviskubit yfir því að vera að svindla og hef aldrei gert þetta áður og mun líklega aldrei reyna þetta aftur, Guð er greinilega að vakta mig og lætur mig ekki komast upp með svona lélega þjófahegðun. En vinkonan þarf að bíta í það súra epli að hafa verið beitt stórkostlegum órétti og að geta líklega ekki gert neitt í því.
Nú á ég bara eftir að vinna daginn í dag og svo verður bara gengið í það að pakka niður litlum kjólum, stuttbuxum og sandölum. Sólkremið má ekki gleymast. Sólgleraugun ekki heldur. Sólrún ekki heldur. Sólstólarnir hljóta að vera á staðnum. Sólblómin... nei, þau eru í Frakklandi, eða kannski líka á Spáni? Sólbrún kem ég til baka. Sól sól skín á mig hí á þig.
Lifið í friði.
<< Home