20.9.05

klukkleikurinn sýnir

vel hvaða bloggarar hafa týnt barninu í sér og hverjir ekki.

Svo sýnir hann líka stundum skemmtilega hluti um fólkið sem maður telur sig farinn að þekkja.
Ég hissaðist á ýmsu en nú man ég vitanlega ekkert af því.
Nema um Leiðarljósið og Ljúfu sem þurfti að gera annars konar lista sem ég geri kannski líka að hennar hvatningu. Ég veit ekki hvort ég hef þegar játað það á þessum síðum, en ég horfði á Leiðarljós í nokkurn tíma, fyrst í gríni og svo var þetta orðið þannig að ég man t.d. eftir mér hjólandi á fleygiferð, leggjandi mig og aðra í hættu í umferðinni til að ná heim fyrir 16.45 því ekki mátti missa af röddinni ógurlegu í byrjun: AND NOW... GUIDING LIGHT. Og best var þegar einhver leikaranna varð veikur: TODAY THE ROLE OF ALAN SPAULDING WILL BE PLAYED BY XY. Það var afar undarlegt og skemmtilega skrýtið þegar Alan breyttist úr tágrönnum ljósum manni í frekar breiðan, dökkan hálfsjóaralegan latínógaur. Og svo eftir viku var tágranni ljósi allt í einu kominn aftur. Fékk mann til að dreyma. Hvað ef maður gæti gert þetta í lífinu sjálfu? Fengið einhvern annan til að leika sig í smá tíma? Svona eins og þegar ráðin er afleysingamanneskja fyrir mann í vinnunni (sem ég hef nú reyndar aldrei lent í því ég hef aldrei verið með alvöru stöðu, þannig...). Allt í einu væri maður bara kominn í frí vitandi að XY reddar málunum fyrir mann, hringir í vinkonurnar, sækir börnin í skólann, gerir matinn, kyssir manninn minn???... kannski vill maður bara vera ómissandi í eigin lífi þó það sé harðbannað að leyfa sér slíka pressu af sálfræðilegum orsökum í vinnunni? Kannski er það vandinn við þetta líf. Hversdagslíf. Maður er ómissandi og enginn getur komið í staðinn fyrir mann. Maður í manns stað. Ónei ósei sei sei.
En aðdáun mín á Leiðarljósi leiddi til þess að ég á hotmeiladressuna leidarljos og ætlaði að skíra bissnessinn minn hér í París því nafni þar til ég komst að því að vafasöm trúarútgáfa í Reykjavík notar það. Var búin að gera auglýsingu sem hljómaði einhvern veginn svona: Leiðarljós, leiðsögn og sögulýsingar í París... Kannski var það lán fyrir mig að bókaútgáfan var til? Annars væri Parísardaman kannski ekki til? Og hvað hefði bloggið mitt þá heitið? Ætli leidarljos.blogspot sé til? Er ég til? Ég spyr eins og Farfuglinn. Hvernig fór það annars? Á hún hund?
Jæja, nú er ég farin að bulla sem er aldrei gert á þessari síðu. Kominn fríálfur í mig.

Nú er aðalmálið að Lesbókin berist mér fyrir brottför. Djí, ég hlakka til að lesa um dauða eða upprisu eða heilsu skáldsögunnar. Mér finnst Lesbókin yfirleitt mjög skemmtileg og hún er ástæðan fyrir því að ég á enn bankareikning á Íslandi, til að geta greitt áskriftina á henni. En mér finnst engin ástæða til að hissast á fólki sem finnst Lesbókin drepleiðinleg, og er hissa á Ljúfu að hatast við fólk sem skrifar íslenskuna bjagað. Mér finnst til dæmis systurnar Hallveig og Hildigunnur sem gera þetta óspart svo skemmtilegar og finnst þetta gera svona ákveðinn hreim, vera sniðugt stílbragð sem ég gæti samt ekki notað sjálf. Ég leita hins vegar logandi (leiðar)ljósi að því hverngi á að skrifa BOGGUHREIMINN. Sem er hneykslaða konan á náttkjólnum með rúllur í hárinu og sígarettuna lafandi í munnvikinu og talar úr kokinu og er agalega sjokkeruð á fólkinu í kringum hana sem hugsar ekki eins og hún sjálf. Ef einhver hefur hugmynd, er hún vel þegin. En ég veit að Ljúfa meinar ekkert illt með þessu. Ljúf eins og hún er þó hún segist ekki vera það...

Lifið í friði.

p.s. ég borðaði fullt af HRÍSKÚLUM í gær. Ligga ligga lá.