tölur
Í morgun fór ég í glerkúluna mína nýju (sjá pistilinn Löggulíf II hér örlítið aftar) og hélt í matvörubúðina með langan innkaupalista sem náði yfir alla jólahelgina og vonandi fram að brottför okkar til Dísu druslu í Óðinsvéum á fimmta jóladegi.Það var nóg að gera í búðinni og hálfgerður baráttuhugur í sumum húsmæðranna, en nýja kúlan mín er mjög fín svo ég náði í vörurnar hingað og þangað um búðina og kom mér á kassann á þokkalegum tíma. Brosti alltaf fögru brosi þegar einhver vildi troða sér framhjá mér eða keyrði á hælana á mér og það virkaði.
Á kassanum fékk ég smá hjartslátt, skyldi ég eiga fyrir þessu?
Ég keypti eftirfarandi: Tvær kampavínsflöskur GHMumm Gordon Rouge, líter af mjólk, hálfan af rjóma, 1,5 lítra ferskan appelsínusafa, slatta af vatni með gosi í, slatta af flötu vatni, 6 stóra bjóra, 1,5 lítra kók, 6 jólasveina á tréð, 2 pk. fisherman's friend, 300g mjólkursúkkulaði, 800g kolbikasvart súkkulaði, 500g af góðu kaffi sem er lífrænt ræktað og "mannvænt" (veit ekki hvað það er kallað á íslensku commerce équitable sem ber virðingu fyrir fólkinu sem ræktar og týnir og brennir og pakkar...), Rice Krispies, 2 pk. Figolukex, 2 pk. petit beurre kex, 2 pk annað kexdrasl, 12 mini babybelosta, 6 sneiðar af skinku í bréfi, 12 litlar epladjúsfernur, 6 jógúrtir fyrir börn, 4 kókosjógúrtir fyrir mig og 500g nautahakk af lífrænt öldu nauti.
Þetta kostaði mig 98,54 evrur sem er u.þ.b. 8.700 krónur íslenskar. Ég átti fyrir þessu, var einmitt búin að giska á hundrað evrur svo þetta var nokkuð glæsilegt.
Hvað skyldi svona karfa kosta á Íslandi? Vissulega verður að fara og setja kampavín og bjór í sérkörfu í annarri búð, Íslendingum er ekki enn treyst til að ráða við drykkjumanninn í sér í matvörubúðinni.
Næst lá leið mín á markaðinn. Þar náði ég í andabringurnar sem eru fjórar vel stórar. Þær kostuðu 28 evrur. Sem er ca. 2.500 íslenskar krónur.
Eftir það fór ég til grænmetissalans míns og keypti tvær paprikur, slatta af tómötum, tvö kíló af perum, eitt af eplum, tvo spergilkálhausa, 5 fallegar gulrætur, tvö kíló af kartöflum og ég held að þetta sé allt. Þetta kostaði mig 11,67 evrur sem verður að þúsundkalli í íslenskum krónum.
Það er alltaf verið að segja mér að það sé orðið svo ódýrt að versla á Íslandi. Nú lýsi ég eftir samanburði við þessi innkaup frá áhugasömum heima.
Annars er allt í blóma hérna. Ég hef verið að spá hitabylgju yfir jólin síðastliðnar vikur og það virðist ætla að rætast. Hitinn er farinn upp í tíu gráður og mjög gott að vera úti núna eftir kuldakastið undanfarna daga. Ég er vissulega rammgöldrótt svo þetta er líklega að einhverju leyti mér að þakka.
Lifið í friði.
<< Home