1.12.04

Prófdagur II

Í gær þegar prófið hófst kom rödd í hátalara sem tilkynnti prófreglur o.fl. Hún sagði umsækjendum einnig að hlutföllin væru eftirfarandi: 837 manns þreyta prófið. 32 stöður í boði. Arnaud fékk smá áfall og var virkilega að hugsa um að standa upp og fara. Til hvers að standa í þessu?
Hann sat áfram og lætur vel af genginu. Ritgerðarefnið kom honum ekki á óvart: notandi, lesandi, viðskiptavinur, gestur... hvað býr að baki þessum orðum sem hægt er að nota um þá sem koma inn á bókasafn? Og hvernig á að þjóna mismunandi kúnnum... afskaplega heimspekilegt efni sem gerði mér grein fyrir því að það getur virkilega verið margslungið að reka bókasafn og kannski ættu Frakkar að bjóða upp á þriggja ára nám eins og er gert á Íslandi.
Seinni hlutinn, "note de synthèse" sem er skýrsla eða greinargerð unnin upp úr mörgum greinum, var um efni sem hann þekkir mjög vel og var búinn að lesa mikið um nýlega í sérútgáfu frá "Canard Enchaîné" (dagblað sem ætti SKO að vera til á Íslandi líka, blað sem er á móti öllum, hægri vinstri miðju, engum er vægt og allt er sagt, en aldrei á ábyrgðarlausan hátt). Efnið var um kaup og sölu á bókaútgáfum og hvernig á laumulegan hátt fyrirtækin eru öll að renna saman í einn til þrjá fjölmiðlarisa. Kannast einhver við svona mál? Héldu einhverjir að Íslendingar væru einir að horfa upp á svonalagað gerast? Er Davíð kannski hetja að vera að berjast gegn þessu með lögum, meðan franska stjórnin virðist standa aðgerðarlaus og horfa upp á veldin myndast? Auðvitað eru ýmis konar fjölmiðlalög hér í gangi, en málið er að "markaðurinn" kemst alltaf í kringum lögin. Þeir hugsa og hugsa með hjálp lögfróðra "manna" (ég vildi heldur kalla þá dýr) og finna alltaf leiðir til að græða meiri pening og sölsa undir sig meiri völdum.
Verð að hætta. Lítill álfur pissaði á gólfið hérna og segir "mamma mín ébú pissa".
Ég sem hélt að maður ætti bara að skúra á laugardögum samkvæmt einiberjarunnalaginu!

Lifið í friði.