5.12.04

jólaball, rifrildi og bull um hitt og þetta

Það var jólaball hjá franskíslenskum og alíslenskum útlægum börnum á öllum aldri í París í dag. Gengið í kringum einiberjarunn. Er þetta ekki einn af undarlegustu siðum sem við eigum? Það sló mig allt í einu þar sem ég leiddi dóttur mína alsæla og kófsveittan jólasvein í ullarvettlingum og söng hástöfum þar sem fæst barnanna og ekki margir foreldranna kunna lögin. Þetta var þó hressilegasta jólaball og fyrst dóttir mín var sæl, getur maður þolað svona undarlega siði. Hvaðan kemur þetta? Líklega frá fyrrverandi kúgurum okkar Dönum. Og þaðan frá hinum skrýtnu Svíum. Er það ekki?
Annars hef ég fylgst með og m.a.s. lagt orð í belg í frábærum umræðum hjá Hnakkusi sem ég þarf að bæta í uppáhöldin mín hið fyrsta. Og í gegnum þessar umræður rakst ég á góðan Baldur líka sem ég þarf líka að bæta við. Það er ótrúlega gaman að lesa þetta rifrildi og þó að málefnið sé vitanlega hryllingur (einni blóðugri helgi var að ljúka, a.m.k. 60 létust, sem þýðir kannski að þeir voru 160, hvað veit maður, treysti aldrei tölum sem ég fæ í gegnum hlýðna fjölmiðlana). Tillaga fyrir andlausa væri að taka þennan díalóg í orðabelg Hnakkusar og lýsa persónunum bak við setningarnar.
Þó ég geti persónulega aldrei hótað fólki ofbeldi, finnst mér Hnakkus nokkuð góður og skil vel og tek þátt í reiði hans. Ef ég sjálf hótaði ofbeldi yrði líklega hlegið að mér, fólk er ekki hrætt við manneskju sem nær ekki upp í aðra hillu í efri skáp án þess að stíga upp á koll. Ég get reyndar haft ansi hátt og stundum verð ég agalega reið og þá getur fólki orðið um og ó, en það veit samt að það ræður við mig líkamlega. Þess vegna er ég með mikinn kjaft og nota hann stundum. En ég er reyndar bara svo mikið að vanda mig núna að vera friðarsinni og orðin voða mikill engill með árunum, eiginlega væri ég líklega þessi síðhærða í bleiku mussunni og slitnu fótlaga inniskónum ef við færum út í að lýsa persónunum. Ef við gerum þetta auðveldlega og notum allar klisjurnar. Michael væri vel greiddur til hliðar í jakkafötum og hvítri skyrtu en ekki með bindi (er það ekki annars tískan núna?) Hann væri alla vega eins og er í tísku. En ekki samt með hárið út í loftið af því hann vill líka þóknast foringjanum.
Talandi um tískuna. Ég fór í stelpuboð og útstáelsi á Íslandi í október og flestar stelpurnar voru í gallabuxum og skyrtu. Svo fór mamma í boð um daginn og hitti nokkrar á mínum aldri og sagði mér að þær hefðu allar verið voða smart en allar eins í gallabuxum og blússum. Ég mun ekki henda gallabuxunum sem ég er nýbúin að kaupa, en ég hef ekki farið í þær í rúma viku eftir að mamma sagði mér þetta. Mér finnst það alls ekki nógu flott að vera of mikið í tísku. Allt of snobbuð niður á við til þess. Verð að gera við síðu víðu hippamussuna mína áður en ég fer aftur í gallabuxurnar.
Í kvöld horfði ég á bíómyndina hans Yves Attal sem hann leikur í á móti konunni sinni henni Charlotte Gainsbourg: Ma femme est une actrice. Fjallar um mann sem þolir ekki að konan hans er fræg leikkona og kyssir aðra leikara í vinnunni. Ágæt afþreying. Pínu sjálfsævisögufílingur (þau bera eigin fornöfn og hún er náttúrulega töluvert frægari en hann, held ég, dóttir Serge Gainsbourg, hins eina sanna, blessuð sé minning hans, og Jane Birkin, uppáhalds Breta Frakkanna). En kannski hefði hann átt að hafa þetta alveg sjálfsævisögulegt í staðinn fyrir að þykjast vera aumur íþróttafréttaritari, og deila meira á stjörnukerfið og alla dýrkunina og bullið... Var eiginlega alls ekki nógu góð mynd til að eyða of miklu púðri í að spá í hana.

Reynið endilega að dansa í kringum jólatré á aðventunni. Það góð þreyta ef tir slíka líkamsþjálfun. Og syngið hástöfum um að þið strauið þvottinn á föstudögum. Það getur ekki verið verri sjálfshjálp en t.d. hláturjógi.
En ekki gleyma því að í Írak er fólk að svelta, fólk að grafa ættingja sína, fólk að reyna að ná eigum sínum út úr rústuðum húsunum. Ekki gleyma heldur amerísku börnunum sem deyja þarna þó þeir trúi ekki lengur á málstaðinn, orðnir kolruglaðir og vilja bara komast heim til mömmu aftur.

Lifið í friði.