14.12.04

löggulíf II

Eftir hremmingar mánudagsins (sjá pistil hér á undan) var ég róleg heima með börnin í nokkra daga. Á föstudeginum neyddist ég nú samt til að halda á vit ævintýra meðal fólks og ákvað að fara í verslunarmiðstöð eina ógurlega sem er hér norður af París. Þar er allt til alls alveg eins og í íslenskum kringlum og þar sem ég þurfti sitt lítið af hvoru var þetta einfaldasta lausnin þar sem París er orðin eins og versta Reykjavík, troðfull af fólki að kaupa sér jól með angistarsvip. Kringlan var það líka en ég bjó mér til mitt fræga glerhylki, afar hentugt einangrunarhylki sem ég nota á börnin líka og margar vinkonur mínar öfunda mig af. Þannig útbúin fleygði ég mér inn í þessa hörmungarös sem gerir verstu jólabörn afhuga jólunum. Fyrst lá leiðin í FNAC sem er uppáhaldsbúð fólks sem hefur gaman að geisladiskum, bókum og rafmagnstækjum til tómstundanotkunar (ekkert fyrir eldhúsið eða þvottahúsið). Frábær búð sem selur ALLA tónlist og er oftast með hæft starfsfólk sem hefur brennandi áhuga á vörunni sem það er að selja.
Fyrst lá leið mín í rekkann með óáteknum spólum í vídeóupptökuvélina okkar sem er nýkomin úr viðurstyggilega dýrri viðgerð. Nú á að fara að festa á filmu þessi dásamlegu skrímsli sem ég kalla börnin mín, áður en þau verða stærri skrímsli og fara að öskra á mann að þau báðu ekki um að fæðast og fleira í þeim dúr. Ég fann fínan tilboðspakka sem ég stakk undir hendina meðan ég braut mér leið yfir í tölvudeildina.
Þar skoðaði ég ýmsar dásemdir og lét mig dreyma en beið lengi eftir að komast í tæri við sölumann sem átti að gefa mér bækling um allar tölvurnar sem FNAC býður falar. Þeir gera nefninlega líka frábærar úttektir og samanburð á vörum sínum, sem er hægt að treysta nokkuð vel. Sölumaðurinn tjáði mér að því miður væru bæklingarnir uppurnir, ég er greinilega ekki sú eina sem er að hugsa um að notfæra mér jólin sem afsökun fyrir því að kaupa stærri og betri tölvu fyrir heimilið.
Það pirraði mig ógurlega að ég gæti ekki fengið bækling, ég get kannski brynjað mig fyrir ösinni til að komast heil í gegnum daginn, en ég get ekki tekið stórar ákvarðanir eins og hvaða tölva væri best, í glerkúlunni - ekki pláss fyrir það inni í henni. Þannig strunsaði ég beint að útganginum, framhjá þremur risastórum svörtum öryggisvörðum (ekki lesa neinn rasisma úr þessu, hér er eingöngu um kaldar staðreyndir að ræða) og í gegnum stóru rafrænu hliðin sem vitanlega fóru af stað með hvílíkum látum að glerkúlan mín brotnaði í þúsund mola og dreifðist um allt gólfið þarna í kringum mig. Ég skildi strax hvað var um að vera og greip í ógreidda spólupakkann og lyfti honum hátt á loft í áttina að ógnvekjandi öryggisvörðunum sem komu aðvífandi. C'est moi, c'est moi, þetta er ég vældi ég ámátlega þar sem þeir voru komnir og búnir að umkringja mig.
Eins og öryggisvörðum einum er lagið ásamt lögreglumönnum, tekst þeim með einhverjum svip sem er ekki einu sinni svipur heldur svipleysi að gera mann að ótíndum sakamanni á svipstundu. Líkami minn brást við með miklum skjálfta og svipaðri lömunartilfinningu og á mánudeginum á hamborgarastaðnum.
Einn varðanna tók orðalaust málið í sínar hendur og sagði djúpum rómi: "Ekkert mál frú, fylgið mér". Ég horfði í áttina að kössunum og vonaði innilega að ég ætti bara að fylgja honum þangað til að borga og ahbú. En nei, við fórum í hina áttina inn á litla skrifstofu með berum stúlkum upp um... nei, nú var ég farin að skálda klisjur, höldum okkur við staðreyndir... lítil skrifstofa full af pappírum og drasli, engar berar stelpur.
Hann sagði mér að setjast og ég datt þarna niður á lítinn ódýran hálfskakkan klappstól og byrjaði að reyna að útskýra fyrir honum að ég hefði alveg gleymt mér þarna í tölvudeildinni og þurft að bíða svo lengi eftir afgreiðslu og og og. "Skilríki". Ég var svo skjálfhent að ég gat varla dregið upp veskið mitt, en hafði þó af að finna fyrir hann þetta óþolandi helvítis kartesesjúr sem öskrar alltaf INNFLYTJANDI framan í alla sem fá að sjá það hjá manni. Verð að ganga í það mál að fá mér franskt ökuskírteini sem vinkonur mínar eru farnar að nota sem skilríki hérna. Svo skrifaði maðurinn og skrifaði, allt sem stóð á dvalarleyfinu mínu. Einhver undarlegur svipur kom allt í einu á hann: "aha, ertu gift??" Ég veit ekki hvort þetta voru viðreynslutilburðir eða hvort hann hafði hingað til álitið mig ungling sem ég lendi oft í þar sem ég hef staðist tímans tönn svo ótrúlega vel (og líka af því ég geng með barnahúfu og er innan við einnogþrjátíu á hæð). En ég var í svo miklu skjálfakasti og svo utan við mig af þessu öllu saman að mér var alveg sama þá. Alveg eins og mér var alveg sama þó hann skrifaði allt niður um mig og setti í stóra möppu við hliðina á tölvunni. Hann hringdi eitt símtal og talaði í kódum og ég er ekki viss hvort hann var að ákveða hvenær hann ætlaði í hádegismat eða hvort hann var að gera eitthvað varðandi mig. Veit ekki alveg hvað gerðist þarna... Svo fór hann með mig á kassann og lét mig borga en hélt eftir kassakvittun sem hann sagði vera alveg eðlilegt en ég veit ekki enn hvers vegna það telst eðlilegt. Líklega til að ég geti ekki skipt vörunni í skemmtilegan geisladisk í annarri FNAC-búð.

En þetta veit ég: Ég er komin á sakaskrá hjá FNAC. Allan tímann sem ég eyddi í Kringlunni leið mér eins og myndavélar eltu mig. Ég gerði þetta allra nauðsynlegasta, en dreif mig svo bara út í bíl og heim. Ég er á sakaskrá. Sakamaður. Og á líklega aldrei eftir að njóta þess að fara inn í þessa búð aftur. Eða hvað?

Auðvitað var ég sek. Ég gekk út um hliðin með ógreidda vöru undir hendinni. Það er áreiðanlega miklu stolið úr svona skemmtilegri búð og auðvitað ekki að ástæðulausu sem þrír verðir standa við útganginn og fylgjast með straumnum út og inn. Og nokkuð ljóst að allir, ALLIR sem hliðið pípar á segjast hafa gleymt sér. Ömurleg afsökun.

Það er áreiðanlega öruggast og best að vera bara heima hjá sér. Þar er það maður sjálfur sem hefur stjórn á stöðunni. Ég ætti kannski bara að fara að kaupa allt og hafa samband við fólk í gegnum netið. Er það ekki það sem "valdhafinn" vill? Að við séum öll hrædd heima hjá okkur?

Lifið í friði.