12.12.04

Löggulíf I

Mitt fábrotna hversdagslega líf móður með tvö börn sem fá ekki inni á opinberum og ódýrum geymslustofnunum, breyttist í þrælspennandi reyfara í síðustu viku.
Á mánudaginn þurfti ég að fara með Kára í bólusetningu. Eini tíminn sem við fengum var á slaginu tólf. Ég þurfti auðvitað að taka Sólrúnu með, býst við að það sé ólöglegt að skilja tæplega þriggja ára barn eftir aleitt heima (og svo er náttúrulega ýmislegt brothætt á heimilinu).
Eftir langa bið, vigtun, mælingar, sprautu og mikið hrós fyrir fegurð og hreysti piltsins, stóð ég úti á götu með tvö börn á barmi taugaáfalls af þreytu og hungri. Eftir smá vangaveltur ákvað ég að fara á veitingahús frekar en að troða öllum inn í bíl og svo myndu þau sofna og dagurinn ónýtur bla bla bla þið mæður og feður skiljið mig ykkur hinum er skítsama og ég skil ykkur.
Veitingahúsin eru mörg í miðbæ Pantin-Copavogure en einungis eitt er með hlut sem er ómissandi þegar maður fer einn með tvö lítil börn á veitingahús: barnastóla. Það er auðvitað langversti staðurinn, franska eftirlíkingin af McDonalds, Quick. Frakkar eru bara ekki búnir að átta sig á þessu með barnastólana, eða neita að átta sig á því til að losna við að fá viðskiptavini eins og mig til sín í hádegistörnina.
Mér finnst alltaf jafn ógeðfellt að koma inn á þessa hamborgarastaði. Ég geri það samt sem áður við og við bæði vegna þess sem áður sagði, einu staðirnir sem bjóða upp á aðstöðu fyrir barnafólk og svo á maður stundum bara svo lítinn pening að maður lætur sig hafa það að úða í sig ódýru og fljótlegu rusli til að hafa daginn af.
Það er alltaf góð stemning á svona stöðum. Fullt af fólki að bíða í röð, frekar fúlt yfir því að þurfa að vera inni á þessum stað en ekki frábæra couscous staðnum við hliðina, eða þessum ágæta kínverska á móti. Starfsfólkið er álíka fúlt yfir því að þurfa að vera að vinna þarna og gerir því ekki sitt besta. Stundum verður sami taugaæsingurinn og í umferðaröngþveiti, einn byrjar að pirra sig upphátt og þá verður rifrildi. Eitthvað slíkt gerðist þarna þennan mánudag. Ég tók bara ekki eftir byrjuninni, þó að líklegasti upphafsmaðurinn stæði beint við hliðina á mér, ég var of upptekin við að lesa matseðilinn og spá í hvað væri best fyrir börnin, vitandi að allt væri líklega VERST fyrir börnin... Allt í einu voru tveir menn farnir að öskra á skrýtna manninn við hliðina á mér. Hann uppástóð að sá fyrir aftan hann hefði vísvitandi farið alveg upp að honum og þar sem hann væri mjög taugastrekktur að eðlisfari þyrfti hann á smá plássi að halda til að halda ró sinni. Hann þúaði alla og hinir tveir voru pirraðir yfir því og öskruðu og æptu til að æsa skrýtna karlinn upp. Setningarnar voru álíka gáfulegar og: "hva, ertu fjórtán ára? Heldurðu að þú sért pabbi minn? Ertu geðsjúklingur, farðu á hæli" og annað í þessum dúr. Auðvitað var það greinilegt að sá skrýtni ætti jafnvel heima á stofnun, alla vega greinilega ekki alheill á geði. Feitur og ósjálegur, hálf illa til fara í einhverjum gömlum íþróttagalla. Ekta lúði sem hefur orðið undir í lífinu. Hinir fundu þetta allt jafn auðveldlega og ég og gerðu í því að úthúða honum og espa hann upp. Þegar börnin mín voru komin með skeifu ákvað ég að skipta mér af og sneri mér að öðrum þessara "heilbrigðu" sem var að fá eitthvað út úr því að hrekkja geðsjúklinginn. Bað hann afar rólega um að láta þann veika í friði, hann sæi alveg að hann væri veikur.
"Heilbrigði" maðurinn sneri sér að mér, sagði rólega að hann hefði alveg stjórn á stöðunni og lyfti upp jakkanum. Þar blasti við mér byssubelti með byssu í. Ég lamaðist, en stóð þó einhvern veginn áfram uppi. Maðurinn lyfti þá peysunni sinni upp til að sýna mér skothelt vesti kyrfilega merkt lögreglunni.
Þarna var hann sem sagt, ásamt félaga sínum kominn í dagsljósið. Þetta voru óeinkennisklæddir lögreglumenn að ná sér í hádegismat og fannst það bara allt í lagi að leika sér að því að hrella taugasjúkling í röðinni til að stytta biðina. Og fannst einfaldlega að ég og allir hinir ættum að sjá að þar sem þeir eru lögreglumenn, hlytu þeir að hafa stjórn á stöðunni og að við gætum því verið alveg róleg.
Ég hafði mikið og margt að segja, en upp rifjuðust allar sögurnar af fólki sem hefur lent í gæsluvarðhaldi fyrir að trufla störf lögreglumanna, fólki sem hefur þurft að borga háar fjársektir fyrir að skipta sér af barsmíðum, fólki sem hefur verið skotið niður af lögreglumanni sem hafði ekki alveg stjórn á stöðunni. Ég gerði því það sem parísarmamma mín kenndi mér strax í upphafi. Ég þagði og sneri mér frá. Sýndi ekki einu sinni hneykslunarsvip. Rifrildið hélt áfram, skrýtni karlinn var orðinn svo reiður og er kannski svo firrtur að hann gerði ekki skynsama hlutinn eins og ég. Nú, þar sem allir vissu að þeir væru lögreglumenn notuðu "heilbrigðu" félagarnir óspart hótanir um gæsluvarðhald og sektir. Þegar sá skrýtni var kominn með bakkann sinn lauk deilunni.

Meðan börnin mín úðuðu, allt of sæl fyrir minn smekk, í sig einhverjum pappakögglum sem heita kjúklingabitar, reyndi ég að koma niður hamborgaranum, en gekk illa. Ég skrifaði mörg bréf til yfirmanna lögreglunnar, ráðherra og forseta Frakklands í huganum.
Skrýtni karlinn var á næsta borði að segja vini sínum söguna. Hann benti á mig og bað mig að staðfesta það hvað þetta hefði verið ótrúlega óforskammað af þessum lögreglumönnum. Ég gerði það, en yppti svo öxlum og gaf honum ekki of mikið færi á að fara að tala of mikið við mig. Nennti því engan veginn.
Ég skrifaði aldrei neitt bréf. Ég ákvað að gera það ekki því ég veit að þessir tveir óheilbrigðu lögreglumenn muna nákvæmlega hvernig ég lít út, hvernig börnin mín líta út og geta auðveldlega fundið mig aftur. Þeir eru vopnaðir og ég er einfaldlega of hrædd við þá til að gera eitthvað í stöðunni. Mér líður mjög illa yfir því, en ég sé samt ekki hvernig ég get gert eitthvað og verið örugg um mig og fjölskylduna, það eru til of margar sögur af lögreglumönnum sem leggja fólk í einelti.
Ég vil hins vegar að allir Íslendingar spyrji sig einnar spurningar: Viljum við vopnaða lögreglumenn á Íslandi?
Ég vil það ekki og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að berjast gegn því.

Lifið í friði.