20.12.04

grátur barns

Í hádeginu hikaði ég í smá stund áður en ég tók leifarnar af kjúklingnum út úr ísskápnum og hélt áfram að skafa utan af honum meyrt og gott kjötið handa börnunum í matinn. Þau fengu nefninlega kjúkling í gær líka. Það leiddi af sér hugsanir um það hvað maður hefur það gott og að ekki hafa allir það svona gott. Ég get ekki ímyndað mér hvernig það er að hlusta á barnið sitt gráta af hungri og geta ekki gefið því neitt að borða. Ég get ekki ímyndað mér hvernig konu líður þegar hún hættir að geta gefið barninu brjóst, vitandi að hún á ekkert til að gefa því í staðinn. Ég get bara reynt að gera mér þjáninguna í hugarlund, miðað við það hvað ég þjáist t.d. þegar barnið mitt grætur með hitasótt rétt áður en meðulin taka að virka. Og manni finnst ekki í lagi að börnin borði það sama tvo daga í röð.
Það er allt of mikið af fólki sem fær ekki að borða í þessum blessaða heimi okkar. Allt of mikil fátækt og eymd og volæði á sumum svæðum. Er það eitthvað undarlegt að fólkið leiti á önnur mið? Leggi allt í sölurnar, yfirgefi fjölskylduna og ættjörðina til að komast til landa sem lifa við allsnægtir og einhvers konar frelsi? Ættum við ekki að taka þessu fólki opnum örmum?
Ég held, að hinn venjulegi íslenski meðaljón sé alveg tilbúinn til að sjá það að við getum tekið á móti fólki, fengið því vinnu og hjálpað því til að koma undir sig fótunum. Ég held bara að íslenskir meðaljónar lesi allt of mikið af moggum og hlusti of mikið á ráðamenn til að muna það. Það er hamrað á því að ekki sé hægt að hjálpa öllum, að við séum ekki í stakk búin til að taka á móti útlendingum, að útlendingar geti ekki lært málið okkar og því sé svo erfitt fyrir þá að vera, að útlendingar séu oft alls ekki tilbúnir til að aðlaga sig okkur og bla bla bla... Við, Íslendingar sem erum svo stolt í smæð okkar ættum að vita manna best að það á að bera virðingu fyrir siðum, tungumáli og trú annarra þjóða.
Við Íslendingar sem flytjum í burt frá landinu okkar erum kannski ekki að flýja her sem vill okkur feig eða fátækt og hungursneyð. En ég held að sögurnar á öðrum bloggum af kóklestinni frægu og það sem haft er eftir nokkrum æðstu mönnum þjóðarinnar á góðum vefsíðum ásamt framkomu forsætisráðherra í sambandi við stríðið í Írak sé nóg til þess að ég gæti hugsanlega sótt um pólitískt hæli í Frakklandi. Mig langar a.m.k. stundum til að prófa.
Ég fengi væntanlega neitun. En í þessu fælust ákveðin mótmæli. Það eru þó nokkrir Frakkar sem biðja um pólitískt hæli í öðrum löndum og m.a. í Bandaríkjunum á hverju ári. Ég þarf að hugsa þetta aðeins. Klukkan er of margt núna til að taka mikilvægar ákvarðanir. Læt ykkur vita.

Minni á sólstöður á morgun, sem þýðir að uppi í norðrinu fara dagarnir að lengjast eftir tvo daga. Til hamingju með það þarna uppi í myrku ofríkinu.

Lifið í friði.