hvít jól
Yndislegur morgunn. Fór út á pósthús og keypti öll frímerkin á jólakortin. Þetta árið slapp ég við Halloween lummufrímerkin sem ég neyddist til að kaupa í fyrra, en varð að kaupa frekar hallærisleg afmælisfrímerki með tertu með fullt af kertum. Við skulum bara segja að þau séu 2004 og að þetta sé afmælistertan hans Jesú. Ha? Pósturinn hér er til fyrirmyndar í dreifingu, en ekki í frímerkjasölu. Eiga ekkert upplag af öllum þessum líka fínu frímerkjum sem eru gefin út. Hefði getað keypt rándýr frímerki til styrktar rauða krossinum en barasta tímdi því ekki. Búin að gefa í restos du coeur, hjartaveitingahúsin sem fæða fátæka fólkið yfir vetrarmánuðina. Maður getur bara ekki gefið öllum...Þegar við Sólrún komum út af pósthúsinu var farið að snjóa. Lítil og vesældarleg kornin féllu til jarðar og bráðnuðu jafnskjótt, en meðan við lölluðum á markaðinn fóru þau að stækka og þeim fjölgaði og eftir að hafa keypt alla ostana fyrir jólin, hnetur og negulnagla og pantað andabringurnar (já, Nanna var með pistil um andabringur um daginn og ég sannfærðist og er hætt við að hafa fisk í matinn) var allt orðið hvítt. Við mæðgur tókum okkur góðan tíma í heimferðina, bjuggum til snjóbolta og grýttum gömlu frúrnar, nei, nei, við hentum engum snjóboltum í fólk, lofa því. Sólrún fann langa grein og lék dýratemjarana úr sirkúsnum (sem við fórum í á sunnudaginn) af mikilli list. Við ætlum að reyna að temja Kára í eftirmiðdaginn, ef hann er betri af tanntökunni.
Frábær morgunn. Jól jól jól. Þau eru algerlega komin í mitt jólabarnshjarta núna. Gleðileg jól. Gleðileg jól. Gleðileg jól. Ha ha ha og trallala. Í Betlehem er barn oss fætt.
Ég gleymi því þó ekki að í okkar nafni lifir fólk í eymd og niðurlægingu í Írak.
Lifið í friði.
<< Home