12.1.06

Hugsandi

Þó ég sé í alvarlegri tímaþröng í vinnunni, ákvað ég að laga aðeins tenglalistana mína. Glöggir hafa kannski tekið eftir nokkrum nýjum bloggtenglum undanfarið, það er hræðilegt fyrir bissí konu eins og mig að vera sífellt að uppgötva ný og góð blogg, en svona er það bara. Ég henti einni út sem hefur ekki haldið áfram eftir tvo pistla í haust en leyfi Bryn að vera áfram í veikri von um að hún fari að taka sig á. Ég vil benda þeim sem eru á tenglalistanum mínum á að ef þeir skrá sig á Mikka Vef er ég mun duglegri við að lesa þá.
Svo bætti ég loksins Hugsandi við. Það er fínt veftímarit og nú er þar mjög skemmtileg grein eftir Unni internetmömmu um tónleika og andóf. Hríslast um mann minningarnar við lesturinn. Skyldi Bubbi verða þarna 2018? Kannski verður þá hægt að raula: En núna er Bubbi lamaður, hjólastólnum ííííí....
Ég var þó ekki á þessum fyrri tónleikum frekar en núna en segi mér það til varnar að ég var ofverndað ungmenni þar sem foreldrar mínir höfðu starfað með hjálparsveit Skáta og séð um "dauða tjaldið" í Þórsmörk og foreldrar bestu vinkonu minnar voru bæði löggur. Við fengum því vídeótæki og nóg af nammi þegar eitthvað var um að vera sem olli okkur fiðringi. Þangað til að við fengum allra náðarsamlegast að skreppa stundum í D14, Best og seinna Traffic með því skilyrði að við vorum sóttar. Það var flókið ferli, ekki máttu vinirnir sjá að við vorum sóttar svo þau urðu að bíða bak við hornið með slökkt á bílljósunum. En þetta var útúrdúr.

Ég hef um fullt annað að blogga, en þar sem ég er orðin fimmtán mínútum á eftir áætlun hætti ég núna þæg og góð.

Lifið í friði.