3.1.06

geðorðin

Það er eingöngu geðorðunum tíu á ísskápnum hjá mömmu og pabba að þakka að ég er enn heil á geði. Var að missa mig í morgun í hið gamalkunna panikk- og þunglyndisástand sem einkennir alltaf síðustu daga fyrir brottför. Auðvitað hef ég ekki náð að hitta alla sem ég ætlaði að hitta né gera helminginn af því sem ég ætlaði mér að gera. En auðvitað er þetta bara alltaf svona.
Hugsa jákvætt. Hugsa jákvætt. (Já, ég las bara fyrsta geðorðið og áttaði mig á því að ég ein réði því hvernig mér liði og ákvað að leyfa mér að hætta að líða illa. Hver þarf tíu geðorð þegar þetta fyrsta er svona fínt?).
Gamlárskvöldið eitt og sér er til dæmis nóg til að ferðin hingað heim var þess virði. Við hjónin höfum ekki skemmt okkur svona konunglega lengi lengi og bæði saman. Dansað til klukkan... já, ég ætla að ritskoða tímann til að halda örlitlu af virðingu þeirra sem ekki þegar vita. En það var dansað og daðrað og hlegið og sungið. Við erum alls ekki nógu dugleg við að gera okkur svona góðan dagamun. Partýljónið sem ég var hefur legið niðurnjörvað einhvers staðar þarna inní mér. Norski sjóarinn lét á sér kræla, hneykslaði fjölskylduna upp úr skónum þegar hann hló hátt og hryssingslega og spurði hvort lundarnir ættu virkilega að liggja svona takandi hver annan í rass á fatinu. Svo kom hann við og við fram um kvöldið, sérstaklega eftir að í partýið var komið og hægt að byrja að drekka alminnilega.
Hugsa jákvætt.
Hugsa jákvætt.
Mikið verður gott að komast í eigið rúm. Mikið verður gott að koma börnunum og sjálfri mér aftur í rútínuna. Mikið verður gott að þurfa ekki lengur að vera á þeytingi um bæinn og sérstaklega að þurfa ekki lengur að aka bíl á hverjum degi.
En mikið er hjartað í mér kramið yfir þeim sem ég ekki hitti. T.d. fæ ég sting í hvert skipti sem ég sé BLAÐIÐ út af manni sem vinnur þar og sem ég vildi hitta og ræða við en hef ekki drullast til að gera.
Hugsa jákvætt.
Hugsa jákvætt.

Lifið í friði.