8.1.06

krem

Mér finnst ég liggja í kremdollu og á erfitt með að halda mér á floti. Mýkjandi, sefandi, róandi, stinnandi og styrkjandi. Frískar útlitið og slakar á andlitsdráttum. Það skal þó viðurkennast að mig er farið að langa á snyrtistofu í dekur. Á samt slæma minningu af andlitsnuddi á eina dekurdeginum sem ég hef tekið þátt í. Ég fékk óstöðvandi hláturskast en þorði ekki að hleypa því út um andlitið sem konan var að nudda og strjúka og klípa létt, hélt að hún gæti móðgast. Þess vegna barðist það um inni í mér og ég þjáðist allan tímann. Næstum búin að míga á mig. Sem hefði kannski valdið konunni meira hugarangri en að ég hefði hlegið dátt í smá stund og getað svo leyft henni að halda áfram slök og fín. En það er svo erfitt að bregðast rétt við þegar maður er settur í svona aðstæður sem maður þekkir hvorki né skilur.

Þegar maður er að vinna svona í tölvunni einbeitt og hugrökk er gott að eiga bloggrúntinn sinn. Og skyndilega fannst mér ekki úr vegi að láta ykkur vita að ég hringdi út af sófanum. Lenti á símsvara svo nú er boltinn hjá sófaeigandanum. Verst þykir mér að þurfa að játa að rétt fyrir jólin tók ég ærlega til í geymslunni (sem er ekki það sem ég á erfitt með að játa því ég er vitanlega rígmontin af þessum parti sögunnar) og þá henti ég svona bedda sem er ætlaður sem gestarúm. Dýnan í honum var hryllingur og hann tók ógnarlegt pláss. Voilà. Þetta sannar náttúrulega bara það sem við pabbi höfum alltaf vitað: Maður á aldrei að henda neinu. Feng sjúí peng sjúí. Það getur alltaf komið aftan að manni að losa sig við hluti sem maður getur svo þurft á að halda seinna. Vegir lífsins eru órannsakanlegir og hvern hefði grunað að vinkona vinkonu léti mig sjá á eftir beddanum innan við mánuði eftir að hann var látinn fara? Eftir að hafa staðið ónýttur í kjallaranum í tvö ár?
En aftur að kremunum.

Lifið í friði.