9.1.06

vinkonur

Vinkonur mínar eru allar meira og minna bilaðar. Sumar löggiltir geðsjúklingar sem fá stundum lyf og meðferðir en flestar bara skemmtilega léttgeggjaðar án þess að þurfa á hjálp að halda... eða vilja a.m.k. ekki hjálp... eða... æ, ég veit ekki...
En þær eru líka allar snillingar, hver á sinn hátt.
Kosturinn við að flytja frá Íslandi þegar maður er tvítugur pikkfastur í ákveðnum hópi með ákveðnar hópskoðanir og hóphúmor og hóphegðun er að maður byrjar að kynnast alls konar fólki sem maður hefði ekki svo mikið sem yrt á ef ekki væri fyrir þá staðreynd að tveir Íslendingar í útlöndum eru eins og ættingjar, sitja uppi með hvorn annan hvort sem þeir eiga samleið eða ekki. Og svo reynist maður bara eiga samleið með flestum. Ekki alveg öllum en ansi mörgum. Sumir fara svo heim á skerið aftur og stundum missir maður sambandið þó ekki hafi mann langað til þess, það bara gerist eins og flest annað í lífinu sem bara gerist án þess að hægt sé að ákvarða nákvæmlega á hvaða púnkti eða vegna hvers.
Toujours est il... ég er farin að rugla um allt annað en það sem þessi örstutti póstur sem ég er að stelast til að skella hér inn vegna þess að sonur minn er að gera mig gráhærða og ég get ekki þýtt frasa um yngingarmeðul meðan hann er að vinna í því að elda mig. Geri væntanlega speglaprófið á eftir til að sjá muninn fyrir og eftir meðferð hans.
En já... ég get bara ekki komið orðum að því sem ég ætlaði að segja. Hér kemur það: Ein vinkona var að fá inni í doktorsnám og önnur var að fá vinnu hjá íslensku útrásarfyrirtæki hér í París. Ligga ligga lá! Ég er að rifna úr monti.

Lifið í friði.

p.s. er kallinn dauður eða er hann bara sofandi?