22.3.08

blind stefnumót

Ég fer að vissu leyti á blint stefnumót í hvert skipti sem ég fer í vinnuna.
Auðvitað hitta allir sem stunda einhvers konar þjónustustörf nýtt fólk mjög reglulega en trúið mér það er annað að standa í verslun eða á veitingahúsi og afgreiða heldur en að mæta eins og ég geri í anddyri hótels eða á ákveðið götuhorn og heilsa fólki og ætla að hafa ofan af fyrir því í nokkra klukkutíma. Það er nákvæmlega enginn "múr", ekkert afgreiðsluborð, ekkert starfsmannasvæði, ég er bara með fólkinu og verð að vera hluti af hópnum og þau hluti af mér.
En ég man í alvörunni ekki til þess að hafa hitt einhvern sem ekki var hægt að "tækla", ég hef vitanlega lent í fólki sem var erfiðara en sumir aðrir, en aldrei hef ég verið í aðstæðum þar sem ég hef virkilega óskað mér á brott.
Og oftast er ég bara sérlega heppin. Í dag var t.d. sagt við mig í kveðjuskyni að ég gæti fengið sumarbústað lánaðan ef ég ætti leið heim líkt og einhvern tímann var mér tjáð að hringja ef mig vantaði bíl, hann ætti nóg af þeim.
Ég hef reyndar oft sagt að þó margt megi segja um Íslendinga, þeir eru kannski stundum sveitó og plebbó og hjarðsveinar og undirgefnir og vinnusjúkir og materíalistar, en það sem bjargar langflestum þessara Íslendinga er að þeir eru í alvörunni góðir, það er einhver systrakærleikur milli kvenna og kumpánalegur kærleikur milli kvenna og karla. Er þetta bara nostalgía í mér? Er þetta kannski bara af því að ÉG er svo frábær? Nei, í alvöru, er þetta ekki rétt hjá mér? Eru Íslendingar ekki upp til hópa gott fólk? Er málið kannski að FÓLK er upp til hópa gott fólk?

Og svo má heldur ekki gleyma því hvað Íslendingar geta verið með góðan húmor. Stundum er ég flissandi í marga klukkutíma eftir að hafa kvatt hópa.

Sagði ég ekki að lífið væri skemmtilegt? Jú, ég sagði það.

Lifið í friði.