18.3.08

í nótt

Stress er ekki gott svefnmeðal.

Í nótt las ég svo til alla Minnisbók Sigurðar Pálssonar. Hún er góð. Stundum verkjaði mig af þrá eftir þessum tíma, tímanum þegar maður uppgötvar París, Parísarbúana, kaffihúsalífið, söfnin, Polly Maggoo...

Ég fékk einu sinni símskeyti, það var á tvítugsafmælinu mínu og var hringt inn til au-pair fjölskyldunnar, heimilisfaðirinn tók við því og skrifaði á lítinn bréfmiða sem ég á ennþá:

I litlu horni i hjarta thinu ertu alltaf tvitug

Ég hef notað þetta sem möntru en stundum finn ég óþyrmilega vel fyrir því að ég er ekki tvítug lengur.

Mér tekst ansi oft að ná að spjalla við ókunnuga, en það er ekki lengur fólk með dapurt augnaráð á kaffihúsi. Dapra augnaráðið á kaffihúsum er mest spennandi viðmælandinn. Ég er meira að eiga stuttar samræður við kerlingar í búðinni. Ekki nærri því eins... nýtt... finn ekki orðið, skrifaði fyrst dulúðugt en það er ekki það.

Sigurður notar orðið mjóstræti, það er fallegt orð sem ég kann en kann þó ekki að nota. Prófa í næsta göngutúr að koma því að.

Sigurður skrifar ótrúlega fallega til konunnar sinnar, sem hann kallar KJ, en ég er líka KJ og einu sinni var hringt í mig þegar ég bjó á Íslandi og ég áttaði mig á því um leið að leitað var að konu Sigurðar.

Ég er alveg að verða búin með bókina og ég ætla að lesa hana strax aftur, áður en ég skila henni.

Lifið í friði.