18.3.08

taugarnar móðurinnar

Mín fór í hlaupagallann eftir smáhik því kuldinn hérna er ekkert eðlilegur. Taldi mig nú bara hafa gott af smá svita.
Börnin drifin í skóna og yfir til grannans í pössun. Sólrún stekkur inn um leið og hurðin er opnuð, tekur eitthvað óútskýranlegt stökk í loftinu (líklega tvöfaldur axel) og skellur beint á ennið í neðstu tröppu stigagangsins. Ég heyrði dynkinn og stekk til og ætla ekki að reyna að lýsa taugaþenslunni þegar ég sé fokking holuna í enninu. Í smástund fannst mér höfuðkúpan vera opin. Öskrin róuðu mig þó og stefnan var tekin á slysó. Ég gef þeim núll í einkunn fyrir mannlegu hliðina en við þurftum ekki að bíða mjög lengi, líklega bara í rétt rúman hálftíma. Hún er með stóra rifu á enninu sem var límd saman. Ég hálfsé eftir að hafa ekki heimtað saum, er nokkuð viss um að örið gæti orðið dálítið áberandi. Á miðju enninu.

Svitinn í kvöld var því eingöngu í formi stresss (?) og nú sit ég hér með rauðvín í glasi og er enn eins og hengd upp á þráð. Kamillublómin bíða þess að verða sett í sjóðandi vatn, í nótt skal ég sofa.

Lífið er svo skemmtilegt því maður veit bara hreinlega aldrei hvað bíður mann handan hornsins.

Lifið í friði.