8.11.07

mokkaskýrsla

Þar sem sumir virðast fattlausari en aðrir verður að koma fram í sérfærslu að jú, það komu nokkrir og jú, þið hin misstuð af miklu.
Ekki sást furðuvera með dökk sólgleraugu og lambúshettu, Hildigunnur sat sem sagt hjá. En Gvendarbrunnur, Baun, Elías og Addý mættu galvösk og áttum við notalega stund saman, svei mér þá. Addý, óvirk Parísardama, er ekki bloggari en á það til að setja athugasemdir. Hin eru nógu þekkt til að ég þurfi ekki að föndra tengla á þau.

Í dag er síðasti dagurinn minn á Íslandi í gvuð veit hvað langan tíma. Það eru tímar í fögunum mínum en mér sýnist sem svo að ég muni missa af þeim, náði bara að mæta einu sinni. Ég fór og sótti ljóðabókina um fönixinn í gær, en hef ekki náð að hafa samband við annan mann sem hefur skrifað bækur og hjá hverjum ég var búin að panta tvær fyrir vitalöngu síðan og hef aldrei sótt, né greitt. Ef sá les þetta, má hann vita að ég hugsa til hans og ætla mér að ná í bækurnar einn góðan veðurdag. Kannski í dag? síminn hér er fimm sex sjö núll núll fjórir sjö, ef þú vilt hafa samband sjálfur.

Svo langar mig ógeðslega viðbjóðslega mikið í Minnisbók Sigga Páls, er spennt að vita hvort hann dregur upp sömu mynd af djamminu í París og þjónninn gamli á Select sem gat sagt mér nokkrar djúsí sögur af Íslendingum. En ég tími eiginlega ekki að kaupa bókina á fullu verði. Mér finnst í raun að Parísardama eigi að fá svona bók senda, svo getur hún auglýst hana á netinu. Eða hvað? Ég auglýsti reyndar aðra bók heillengi en fékk aldrei eintak af henni sent. Ég er bara ekki í menningarelítu og skipti svo sem ekki miklu máli í heildarmynd markaðarins ógurlega. (Og nú gæti alveg komið broskall, þetta er ekki biturð, ekki lesa slíkt úr þessu, ég bara get ekki fengið af mér að nota broskalla.)

Ég er stressuð og mér er illt í bakinu.

Ég ætla að vera í sundi, líklega í Árbæjarlaug, um kl. 17 í dag. Þið megið alveg koma en ég get samt ekki lofað þessu. Ég hata daginn fyrir brottför dagana.

Lifið í friði.