1010
Ég missti algerlega af því þegar ég skrifaði pistil númer 1000. Það hlýtur að hafa verið fyrir löngu, ég er ekki í bloggham þessa dagana. Þessi er númeraður sérstaklega í fyrirsögn og í kvöld skal skálað fyrir áfanganum.Ég er ekki í ham þessa dagana.
Vinna, læra, fljúga, sofa. Var í flugvél í gær og fer aftur ekki á morgun heldur hinn og svo aftur á föstudaginn. Mér finnst þetta ekki líf og skil nú öllu betur þjáningu mannanna sem gera þetta reglulega og skil betur að þeir skuli níðast á lýðnum til að græða meira, þetta er ekkert nema flugþreyta. Ef þú ert lögmaður geturðu skráð þetta hjá þér og notað fyrir rétti, sjái einhvern tímann ríkisómyndin ástæðu til að fara í alvöru mál við þessa gaga.
En mér tókst að fara í bíó áðan að sjá nýjasta Woody Allen og mikið er ég glöð yfir að tilheyra þeim helmingi (ofdekraða vestræna) mannkyns sem skilur Mr. Allen. Líklega hefði ég ekki þrifist í Frakklandi annars. Hann er góður.
Ég er með kenningu: Hann var kominn á fremsta hlunn með að myrða þann sem afhjúpaði samband hans við sjúpdóttur sína og spyr sig nú stöðugt hvort hann hefði átt að velja hinn kostinn (þ.e. þann að myrða vitnið) af þessum tveimur sem hann hafði.
En þetta er bara kenning og ég hef ekkert fyrir mér í henni annað en efni Match Point og þessarar myndar sem ég sá í kvöld, Cassandra's Dream. Því miður hef ég aldrei setið á djassbúllunni hans og spjallað við hann eftir lokun og ekki heldur rekist á hann á litlum sóðalegum bar í París og farið með hann niður á Pont des Arts að dansa í sólarupprásinni. Dreymir mig um það? Já, núna eftir að mér datt þessi möguleiki í hug. Kannski ég síkreti þetta bara og samkvæmt lögmálinu mun ég sem sagt dansa á Pont des Arts við Woody Allen fyrr en síðar. Er þér boðið? Nehei.
Lifið í friði.
p.s. sögnin að síkreta er sú nýjasta í mínum orðaforða og mun verða notuð óspart á næstunni.
<< Home