24.8.06

ókeypis í París og frelsun undan áruánauð

Á síðunni minni um París eru komnir tveir nýjir kaflar. Annar fjallar um ókeypis staði í París sem vert er að heimsækja og hinn segir frá Giverny, hvar hægt er að skoða hús og garð impressjónistans Claude Monet.
Að auki er ég að smíða betri kafla um fatakaup í París, með "eitthvað fyrir alla" að leiðarljósi, þar verður kafli um notuð föt, annar um nýja hönnuði og dýru þekktu merkin fá sinn stað.
Kaflinn um börnin er einnig í smíðum en gengur ekkert sérlega vel, hann er enn svo til eingöngu til sem krot á notuðum umslögum.
Ég virðist samt vera að losna undan oki örþreytunnar sem hefur hrjáð mig undanfarna mánuði. Ég hef alveg ráðið við lífið, ráðið við að gefa börnunum að borða og aðstoða fólk á leið til Parísar og bara held ég hafi alltaf staðið undir daglegum kröfum umhverfisins. En ég átti ekki snefil af orku í að gera neitt annað en þetta nauðsynlega og oft þegar ég hafði eftirmiðdaga hér ein heima, lagðist ég bara niður í sófa með bók í staðinn fyrir að taka til eða setjast við tölvuna og skrifa allt þetta sem brýst um í mínum fagra kolli.
Þegar ég var síðast á Íslandi, um jólin, hitti ég tvær vinkonur sem höfðu einhvern veginn gerbreyst síðan síðast. Báðar grennst og voru bara miklu kátari og kröftuglegri að sjá. Einhver nýr, skemmtilegur og þægilegur þokki sem þær báru með sér. Við ræddum þetta og þær voru sammála um að þegar yngstu börnin verða þriggja ára breytist margt. Það er víst sagt í fræðunum sem svo margir hata, svona árufræðum eða slíku, að ára barnsins sé samtvinnuð áru móðurinnar fyrstu þrjú árin. Ég ætla ekki að tjá mig um mína skoðun á árutilvist þar sem ég á svo marga vini í hvorum hóp, þeim sem hata svona fyrirbrigði og þeim sem lifa samkvæmt þessum fræðum að ég hef fyrir löngu lært að vera bara sveigjanleg og ber jafnmikla virðingu fyrir öllum vinum mínum hvort sem þeir hafa árur eða hata árur.
Hins vegar held ég að margt geti verið til í þessu þriggja ára tímabili sem barnið hangir meira utan í móðurinni og held m.a.s. að þar sé bæði móðirin með ákveðnar áhyggjur og verndunarþörf gagnvart barninu og svo barnið með meiri þörf fyrir vernd og umhyggju áður en það tekur sig til og ákveður að breytast úr barni (bébé) í krakka (enfant).
Þessi stökkbreyting tekur vitanlega ákveðinn tíma og stundum er barnið með sömu flækjur og unglingurinn, veit ekki hvort það á að vera barn eða krakki við ákveðnar aðstæður og bregst við með hysteríukasti eða fýlu. Kári er á þessu tímabili núna. Hann hefur sem sagt lært að pissa og kúka í klósett og við það breytist ýmislegt og hann finnur það alveg. Hann getur verið óþolandi, grenjaði og vældi stöðugt í klukkutíma í gær og talaði eingöngu barnamál, gagagagúgú. Ég var að verða alveg ga ga og um leið og maðurinn minn kom heim lokaði ég mig inni í herbergi með bók. Tíu mínútur dugðu mér til að ná úr mér pirringnum en það er alveg með ólíkindum hvað börn geta tekið á taugar manns. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef maðurinn minn hefði ekki komið heim þarna, líklega hefði ég nú haldið í mér og ekki framið ódæðisverk en ég lofa ykkur því að þarna fannst mér mjög erfitt að halda aftur af mér.
En hluti af þessari breytingu sem ég finn á sjálfri mér (vonandi er þetta ekki bara þriggja daga maníukast sem bráir síðan af mér og aftur verð ég dauðyfli) kemur fram í því að í gær fórum við í Villette-garðinn og þar léku börnin sér út um allan barnagarðinn án þess að ég væri alltaf með augun á þeim. Ég gat setið og gónað út í loftið og gleymdi mér stundum alveg. Þetta er í fyrsta sinn, held ég örugglega, sem ég geri þetta í almenningsgarði. Yfirleitt vil ég alltaf vita nákvæmlega hvar þau eru stödd og bæði sjá þau og heyra. Þarna vaknaði ég upp af dagdraumum við það að þau voru komin í önnur tæki og öllu erfiðari til klifurs og ég stóð ekki einu sinni upp til að hjálpa þeim, ákvað bara að sitja kyrr og bíða og sjá hvort Kári gæti þetta ekki bara alveg. Sem hann og reyndist geta.
Næst vaknaði ég upp af dagdraumum við að pabbi fór að banna barni sínu að afklæða sig og sá þá að Kári var kominn úr buxunum sínum og hljóp alsæll um á nærbrók og bol. Lítill kútur vildi gera slíkt hið sama en pabbinn vildi það ekki. Ég fór og náði í buxur Kára sem hann hafði raðað snyrtilega í skemmtilega hrúgu á miðjum leikvellinum og leyfði honum að skottast á naríunum, enda eru þessar buxur ómögulegar og flækjast fyrir honum.
Það verður spennandi að sjá hvort nú fari ég aftur að hekla, skrifa meira, út að hjóla og taki kannski til í fleiri skápum. Hvort áran mín ef hún er þarna sé loksins laus úr viðjum áru Kára míns ef hann er með slíkt.
Mér líður a.m.k. vel í dag. Hress og kát. Kát og glöð.

Lifið í friði.