21.8.06

svona er þetta undarlegt

Á föstudaginn kvaldist ég allan daginn yfir því að vera versta mamma í heimi. Kári pissaði fjórum sinnum niður, m.a. í sófann og var þetta mjög niðurlægjandi fyrir hann allt saman.
Á laugardeginum pissaði hann allan daginn í klósett og kúkaði í koppinn. Hann hrópar og klappar fyrir sjálfum sér og virðist hækka um nokkra sentímetra, svo rogginn er hann. Mikil seremónía er orðin úr því að sturta niður og þvo sér um hendurnar og er harðbannað að hjálpa honum nokkurn skapaðan hlut með þetta.
Eitt slys varð í gær, en ég get að vissu leyti sjálfri mér um kennt, hann var of spenntur í leik til að vilja viðurkenna að hann þyrfti að fara á klósettið og ég hefði átt að gabba hann til þess. En öll hin skiptin pissaði hann í klósettið og kúkaði svo í koppinn. Pissaði m.a.s. einu sinni úti í garði og var það lítið mál.
Það rifjaðist upp fyrir mér að portúgölsk kona sagði mér að þar í landi hættu börn yfirleitt um 1 og hálfs árs á bleiju. Hún væri einfaldlega tekin af þeim og yfirleitt tæki þetta stuttan tíma og þessar portúgölsku hlæja að vandræðaganginum í frönskum mömmum sem fara eftir einhverjum sjónvarpssálfræðingum sem græða múltípening á að skrifa bækur og eru jafnvel styrktir af bleijusölum, hvað veit maður, sem náttúrulega myndu tapa stórfé ef öll börn hættu 18 mánaða á bleiju.
Mér fannst hún ægilegt hörkutól og er yfirleitt nokkuð sátt við að láta barnið ráða ferðinni með það hvað það er tilbúið að gera.
En alla helgina er ég mikið búin að hugsa um þetta með að sinn er siður í landi hverju, að það sem einum þykir sjálfsagt þykir öðrum fjarstæða og hvernig getur maður opnað huga sinn algerlega og reynt að skilja hina?
Þess vegna var gaman að lenda á greininni hennar Eyju um gagnkvæman skilning og tillitsemi og fleira. Hún er á Múrnum, nýleg, stutt og laggóð.
Maður verður að plögga hana fyrst hún gerir það ekki sjálf!

Lifið í friði.