18.8.06

fínn afli

í HogM. Haldiði ekki bara að daufa skapilla konan hafi ekki fundið sér haustjakka? Ég ætti náttúrulega alls ekki að gefa upp þá örmu staðreynd að hann var í BB deildinni og ætla ekki að gefa þeim sem ekki vita hvað BB stendur fyrir, útskýringu á því.
En rauður er hann, jamm og já.
Og svo þarf ég náttúrulega að bretta upp á ermarnar af því það eigum við Barbie vaxtarlega sameiginlegt að við erum báðar afar armstuttar, en svo vel vill til að fóðrið er skrautlegt sem náttúrulega kætti mig mikið og sætti mig við uppábrotið um leið.

Við þetta komst ég í svona kaupvímu og keypti 6 nærbuxur á vesalings Kára til að pissa í, 2 köngulóarmannsboli því þó köngulóarmannslínan fáist eingöngu í drengjadeildinni langar dóttur mína líka í svoleiðis bol, 2 köngulóarmannsregnhlífar því þó Kári hafi aldrei lagst í götuna og sagt mér snöktandi að hann hafi aldrei átt regnhlíf (eins og Sólrún gerði í hitabylgjunni í júlí) þá veit ég að ekki þýðir að gefa öðru en ekki hinu þegar um dót er að ræða og ekki reyna að koma með þá lausn að hann hefði getað fengið bolinn og hún regnhlífina, ó nei, virkar ekki þannig, trefil og húfu á Sólrúnu og vettlinga handa mér (í barnadeildinni líka, stuttir handleggir, stuttir fingur). Ætlaði að kaupa trefil og húfu á Kára, en viti menn, bara til Köngulóarmannshúfur og treflar og einhvern veginn var ég komin með upp í kok af þeim gaur þegar þarna var komið sögu og reyndar komin með nett upp í kok af búðinni og grenjandi krökkum líka svo ég lét þetta duga en þykir þetta góður afli.

Byrjuð að kaupa haustvörur, manni finnst það frekar ógeðfellt en eins og ég sagði ykkur í fyrra er sko eins gott að vera snemma í því ef maður vill ná í þetta ódýra og góða hjá vinum okkar Svíunum í HogM. Jamm og jæja. Og læt ég nú þetta raus mitt duga og bið ykkur að...

... lifa í friði.