ég elska þig
Á gönguferð minni um Montmartre fjallið er komið við undir vegg þar sem "ég elska þig" stendur á ýmsum tungumálum, kannski öllum eða kannski er ekkert til sem heitir öll tungumál?Ég man að þegar ég var einhvern tímann fengin til að fara með íslenskuna fyrir einhvern CD-Rom sem átti að innihalda öll heimsins mál neyddist ég til að hryggja þau með því að á listann vantaði færeyskuna. Þau reyndu að þræta fyrir það að til væri tungumálið færeyska og ekki nennti ég að gera nokkuð í því að sanna mitt mál en ráðlagði þeim að hafa samband við danska sendiráðið.
Ef einhver getur skrifað fyrir mig "ég elska þig" á færeysku get ég athugað hvort hún fékk að vera með á þessum vegg.
Fyrir ofan ástarjátningarnar hefur annar götulistamaður límt upp fagra konu í eggjandi stellingu og leggur henni eftirfarandi setnignu í munn: Verum raunsæ, krefjumst hins ómögulega.
Þetta er, ég held ég fari ekki með fleipur, slagorð sem vinnuhópur sem barðist gegn fátækt, heimilisleysi og hungurdauða fyrir nokkrum árum í Frakklandi, notaði.
Þetta á sérlega vel við í dag þegar verið er að reyna að koma fleiri heimilislausum inn á hótel þar sem tjöldin sem þau fengu úthlutað í vetur þykja allt of áberandi í skúmaskotum borgarinnar og fleiri og fleiri gera því athugasemdir við þennan óvelkomna hóp. Borgaryfirvöld eru því á fullu núna að reyna að sigra hið ómögulega, að koma öllum í skjól. Næsta verkefni verður þá væntanlega: matur fyrir alla.
Slagorðið er alla vega mjög gott:
Verum raunsæ, krefjumst hins ómögulega.
Lifið í friði.
<< Home