22.8.06

blendnar tilfinningar gleraugnagláms

Það vekur hjá manni blendnar tilfinningar að lesa um sjálfboðaliða í tíu vikna tjaldbúðum á Íslandi við að laga ýmislegt í umhverfinu, t.d. göngustíginn upp á Esjuna.
Annars vegar skömmustutilfinning. Erum við ekki nógu rík til að greiða fólki laun sem vinnur í okkar þágu? Þurfum við virkilega á ölmusu góðhjartaðra útlendinga að halda?
Hins vegar gleðitilfinning. Mikið er til gott fólk í heiminum sem gerir góða hluti fyrir ekki neitt. Vonandi geta einhverjir lært af þeim að það er líka hægt að lifa án þess að hugsa í sífellu um peninga og gróða, að suma hluti er bara hreinlega ekki hægt að verðleggja, svo mikils virði eru þeir.

Annars eru helstar fréttirnar af mér að ég fór í gær og valdi mér gleraugu. Ég hef ekki hætt að dáðst að sjálfri mér síðan. Í fyrsta lagi að hafa drifið mig út í gleraugnabúðina með uppáskriftina frá í janúar síðastliðnum og í öðru lagi að ég valdi gleraugun alveg sjálf, án þess að henda mér nokkru sinni í gólfið grenjandi. Bara stóð föstum fótum og mátaði og mátaði og mátaði aftur og valdi svo eitt par sem ég held að hljóti bara að verða fínt á mér. Sjáið þið mig í anda með Chanel gleraugu? Nei, ekki ég heldur en ef þið hefðuð komið með mér í gær hefðuð þið getað séð slíka dýrð á nefi mínu. Það þyrfti nú samt að borga mér stóran aur fyrir að ganga með c-in tvö, steinum skreytt, á gjörðinni. Ég er allt of snobbuð fyrir svona fansí merkingar. Mátaði meira að segja Gucci sem fóru mér vel en þar er merkið líka allt of áberandi svo þau voru útilokuð. Hins vegar eru þau sem urðu fyrir valinu líka voða fínt og þekkt merki en það sést hvergi utanfrá sem mér finnst mun smartara og meira klassí.
Það var 50 prósent afsláttur í búðinni og sú staðreynd hjálpaði vissulega til þess að þrekvirkið var unnið. Þegar tryggingarnar hafa greitt sinn hluta standa eftir 34 evrur sem ég greiði sjálf. Vel sloppið? Ég greiði 100 evrur á mánuði í blessaðar tryggingarnar svo þetta er sossum ekki neitt þannig lagað séð ókeypis.

Lifið í friði.