31.1.06

undirskriftasöfnun

Þó mér sé það gersamlega óskiljanlegt að á 21. öldinni þurfum við að vera að ræða þessi mál ennþá, vil ég benda fólki á undirskriftasöfnunina
ÖLL JÖFN

Ég bara skil það ekki, skil það EKKI,hvers vegna þetta flækist fyrir fólki. Lenti einmitt inn á smá umræðu um þetta um daginn í franska sjónvarpinu. Franska þingið var að gera breytingar á hjúskaparlögum og "gleymdi" enn og aftur samkynhneigðum. Fólkið sem situr þarna og er að réttlæta þetta beitir sömu rökleysunni og íslenskir hálfvitar: "Náttúran vill hafa þetta svona".

Síðan hvenær í fjandanum eru hjúskaparlögin náttúrulögmál? Hjúskapur, hjónaband, giftingar, þetta eru allt orð sem við mennirnir bjuggum til og fjalla um skipulag í þjóðfélaginu sem er svo flókið að við þurfum að gera alls konar samninga við m.a.s. þá sem við elskum mest til að tryggja réttarstöðu okkar ef eitthvað kemur upp á. Náttúrulögmál hvað? Kapítalískt lögmál, já. Náttúran er alsaklaus af þessari vitleysu.

Ég giftist manninum mínum eftir að við vorum orðin fjögurra manna fjölskylda, eingöngu til að tryggja réttarstöðu mína sem útlendingur og móðir (og vitanlega eiginkona). Við gerðum örlítið partý úr þessu, svona fyrir foreldra sem voru svo innilega og á sinn gamaldags hátt, ánægð með þessa ákvörðun okkar. Við munum hvorugt okkar almennilega dagsetninguna og eigum eflaust lítið eftir að halda upp á brúðkaupsdaginn okkar. Við höldum upp á það á hverjum degi að við erum saman og að okkur líður vel saman og það er nóg. Hins vegar fannst mér, aðallega mér, nauðsynlegt að ganga frá þessum pappírsmálum.
Þess vegna er ég gersamlega ósammála þeim sem afgreiða þetta mál sem platvandamál. Það sé hvort eð er svo hallærislegt að giftast að hommar og lesbíur eigi bara að vera ánægð með að þurfa þess ekki. Það er rangt að hugsa svona meðan þjóðfélagið byggir ýmis lög og rétt fólks á hjúskaparsamningnum. Erfðamál, forræðismál og ýmislegt annað skipta (því miður) máli. Og það er bara hreinlega óútskýranlega fáránlegt að ákveðinn hópur fólks, vegna kynhneigðar sinnar, þurfi að líða svona óréttlæti.
Burtséð frá því hvort okkur finnist giftingar hallærislegar eða ekki, skiptir það máli fyrir alla að hafa þetta val.
Ef brotið er á einum þegn, er brotið á þjóðinni allri. Munum það.

Lifið í friði.