27.1.06

smáborgarinn moi

Ég stefndi hraðbyri í alvöru þunglyndi áðan yfir eigin smáborgarahugsunarhætti og almennri hræsni minni.
Ég sá að ég gæti ekki verið að gera neitt af viti og lagðist því upp í rúm eftir að drengurinn minn var sofnaður, og hélt áfram að lesa í bókinni sem ég er búin að vera að glugga í síðastliðna mánuði. Sjáið bara smáborgaraháttinn við þessa setningu. Mér, fullkomnu húsmóðurinni og góða gædinum getur ekki þótt það að liggja og lesa á miðjum degi, vera vit. Nei, það væri vit að vera að taka til uppi á skáp eða frammi á skrifstofu. Ekki veitti nú af!
EN, ég lenti á svo rosalega góðum kafla að ég fílefldist og varð aftur reið út í heimska markaðskalla (já, konur eru líka kallar eins og við amma pönk komust að í símanum áðan) og fylltist von um að bráðum fari nú eitthvað að gerast.
Ætla ég að deila þessum kafla með ykkur? Það væri nú gaman, en hann verður djöfulsins torf að þýða. Hann fjallar um tvöfeldni í samskiptum stjórnmálamanna við fólkið, lýðinn. Og um að þessi ameríkaníserun á stjórnmálum sem hafa breyst í sýningar (sirkús?) hverra gæði mælast með klappmælum í salnum er farin að valda hjásetu kjósenda. Er orðið hjáseta til?
Hver er munurinn á republicain og democratique? Ætli ég nenni að leggjast yfir þessar blaðsíður og deila þeim með ykkur?
Læt mér nægja í bili að segja ykkur að eftir að ég fór að lesa frönskuna almennilega fylltist ég miklum hroka gagnvart fólki sem ekki les frönsku. Fann fyrir mikilli stærrimáttarkennd, vegna víðáttunnar sem opnaðist mér. Ég hef aðeins lækkað rostann í sjálfri mér, held ég... og þó... veit ekki alveg.

Bendi svo á ágæta grein á Múrnum eftir ÁJ um lagabreytingar á hjúskaparlögum. Er sammála öllum orðunum og öllum samsetningum þeirra. Pour une fois.

Lifið í friði.