31.1.06

Ótrúlega góður

Fyrirsögnin er tengill í góðan pistil. Já, ég er orðin eins og versti sníkjubloggari. Kem með leiðindahúmbúkk hér á milli þess sem ég sendi ykkur að lesa markvert og gott á öðrum síðum.
Kannski er kominn tími til að leggja þessa síðu niður?
Kannski verður þetta bara tímabundin lægð.
En ég er í kreppu: Má maður segja fallega sögu af fólki sem maður þekkir ekkert lengur?

Æ, ég geri það bara. Ef mér berast kvartanir, tek ég söguna bara út. Annað eins hefur nú gerst hérna hjá mér.

Einu sinni vann ég á miklum kvennavinnustað. Þetta var með skólanum, á kvöldin og um helgar. Á laugardagskvöldum áttum við það til að byrja að fá okkur í tána rétt fyrir vinnulok, til að vera nú tilbúnar á djammið sem beið okkar niðri í bæ.
Eitt vetrarkvöld var svona plan í gangi. Mateus rósavín var drukkið úr plastglösum sem kók væri. Um leið og búið var að ganga frá var hringt á bíl. Við hlupum allar út í rok og mikla hálku og vildi ekki betur til en svo að ein okkar (því miður ekki ég) rann illilega til og sneri sig. Hún kom þó inn í bílinn með okkur en á leiðinni niður í bæ horfðum við á fót hennar bólgna upp og hún var hálfkjökrandi af sársauka. Eins og góðri vinkonu sæmir, rak hún okkur út úr bílnum niðri í bæ og þurfti ekki mikið að hafa fyrir því að sannfæra okkur, enda tókum við það loforð af bílstjóranum að hann færi með vinkonu okkar heim að dyrum.
Við skemmtum okkur ágætlega þetta kvöld og höfðum litlar áhyggjur af meiddu stúlkunni. Vissum þá ekki að bílstjórinn stóð ekki við orð sín. Þegar þau komu að götu þeirri er foreldrar hennar bjuggu við, blasti við honum klakabrynjuð brekka og neitaði hann að reyna við hana. Rak hana út úr bílnum, vitanlega eftir að hún hafði greitt farið.
Nú voru góð ráð dýr fyrir meiddu stúlkuna. Hún sá að í fyrsta húsinu í götunni var partý í gangi og ákvað að hökta þangað og biðja um hjálp að sínum dyrum. Hún hringir bjöllunni og fegursti maður sem hún hafði augum litið opnar dyrnar. Hún útskýrir vandamál sitt og orðalaust grípur maðurinn hana í fangið og ber hana heim. Hann kveður með virktum og hverfur út í nóttina og partýið sitt.
Meidda stúlkan átti erfitt með svefn um nóttina og ekki eingöngu vegna sársauka í ökkla.

Daginn eftir fréttum við að stúlkan er komin í gifsi og mun ekki mæta í vinnuna næstu vikurnar. Við hömuðumst við að vorkenna henni og vorum vitanlega með bullandi samviskubit við fréttirnar af ómögulega bílstjóranum. Eitthvað minnkaði samviskubitið þó þegar seinna um daginn barst risastór blómvöndur til vinkonunnar með korti sem óskaði henni góðs bata.

Einhvern veginn gerðist það svo að fallegi maðurinn hafði samband sjálfur og bauð í bíltúr á fína sportbílnum sínum. Við vinkonurnar stóðum yfirleitt á öndinni þegar hann fór svo að venja komur sínar á vinnustaðinn, til að sækja eða keyra meiddu stúlkuna í vinnuna eftir að hún var komin á fætur á ný.

Meidda stúlkan og fagri maðurinn eru hjón í dag.

Lifið í friði.