18.8.05

minningar úr blokkinni

Í Arahólum tvö var mikið af krökkum. Og nokkrar mömmur sem alltaf var hægt að leita til þegar manns eigin mamma var í vinnunni. Ég var jú lyklabarn, með lykil í teygju um hálsinn og tel það ekki hafa skaðað mig á nokkurn hátt.
Það var alger paradís að hafa svona mikið af krökkum að leika sér við. Stundum var það líka erfitt, stundum var leikinn leikur sem hét þú mátt ekki vera memm í dag eða eitthvað slíkt, stundum lék ég slíka leiki sjálf.
Ég man ekki eftir því að neinn úr Arahólum tvö hafi orðið sérlega frægur á Íslandi, hvorki um lengri né skemmri tíma. (Nema kannski systir mín, sem er mjög fræg fótboltastjarna og var í sjónvarpinu um daginn að sýna kraftaverkið dóttur sína.)
En í nálægri blokk bjó fagurlega skapaður drengur sem var lengi á stalli í hugum okkar því hann lék Andra í Punktur punktur komma strik. Ég held að hann hafi ekki fallið af stallinum, bara flutt í burtu. En þarna gætir reyndar gloppa í minni mínu.
Í Suðurhólum (minnir mig, er ekki viss og er búin að eyða löngum tíma í að reyna að sjá kort af helvítis Reykjavík á netinu og nenni ekki meir) bjó fín stelpa sem var með mér í bekk. Hún átti frábæra mömmu sem var fóstra og yndislegan pabba. Svo átti hún yngri bróður sem okkur fannst náttúrulega bæði vælu- og klöguskjóða. En við vorum líklega ekki alveg réttlátar í því mati okkar. Þessi maður skemmtir landanum á hverju laugardagskvöldi í dag. Aldrei hefði okkur dottið í hug að hann yrði svona frægur hann Gísli, þetta peð.

Lifið í friði.