Parísarströndin
Ströndin sem borgarstjórinn okkar lætur útbúa á hverju sumri í 3 vikur við Signu er hreint frábærlega vel heppnuð aðgerð. Eyddi eftirmiðdeginum með dóttur minni þar í gær við að busla í vatni og moka sandi. Hlustuðum andaktugar á unga fallega stúlku sem hefði alveg getað verið íslensk, spila klassík á fiðlu, sáum kolsvarta stráklædda konu dansa með stóra trommu bundna við mittið. Hún er líklega ekki íslensk en rosalegur kraftur var í henni og gaman að sjá hvernig hún dró konur inn í dansinn og hvernig þær slepptu sér smátt og smátt og hristu mismjúka búka sína í takt við trommusláttinn. Mikil upplifun. Svo sáum við gráhærðan karl með greitt yfir skallann spila I can't get no satisfaction á skemmtara, harmónikku og trommu, á öll hljóðfærin í einu. Allir skankar nýttir þar.Fallegt fólk, stórt og smátt og svart og hvítt og útlenskt og innlent og samkynhneigt og gagnkynhneigt og þroskaheftir og fólk á bikini og fólk í leðurjökkum og stígvélum og fullt af blómaskreyttum sumarkjólum og margar parishiltonbritneyspearsspicegirls í bleikum undarlega sniðnum bolum með bleik belti á háum hælum, bleikum. Sumar þeirra voru reyndar ekki bleikar heldur blágrænar eða túrkís. Börn og gamalmenni og allir, ALLIR, glaðir og afslappaðir.
Eiginlega er það eins og bylting að slaka á taugum og vöðvum ofan á hraðbraut. Út úr París með einkabílinn. Út núna strax! Áfram borgarstjórar stórborga sem þora að skera upp herör gegn þessum ósóma sem bílar eru. Borgarstjórinn í London er hetja í lit og Delanoë okkar stendur sig ágætlega. Brosir framan í allt skítkastið sem hann fær út af þessu tiltæki með ströndina í París og einnig út af strætóreinunum sem hann er búinn að koma upp um alla borg. Almennilegir menn.
En nú er ég farin út í góða veðrið. Á mínum tveimur jafnfljótu.
Lifið í friði.
<< Home