18.8.05

Ég spyr nú eins og Hryssan, hvar eru allir? Nennti enginn að geta hvaða mynd ég sá um daginn? Var þetta of augljóst eða alls ekki ljóst?
Ég sá Kill Bill um daginn, bæði 1 og 2. Við hjónin erum í smá meðferð núna og reynum að horfa á bíómynd a.m.k. einu sinni í viku. Mér fannst Kill Bill bæði ógeðfelld og frekar leiðinleg. Jú, jú, hún Uma er flott og ýmislegt gott í myndunum en heildina var ég mjög svekkt með. Ég held að hluti af því sé að ég þoli mun verr ofbeldi en áður. Svo finnst mér Tarentino eiga við barnavandamál að stríða, hann finnur einn góðan brandara eins og t.d. að láta blóðið sprautast úr sárum eftir afskorna limi og notar hann aftur og aftur og aftur eins og dóttir mín gerir þegar henni tekst að fá okkur til að hlægja. Á endanum frýs brosið og maður þarf að halda í sér að verða ekki hreinlega pirraður. Sko, maður vill ekki gera litlu barni það að verða pirraður á sama hlut og fékk mann til að hlægja, maður reynir að leiða athygli þess að einhverju öðru og fá fíflalætin til að stöðvast af sjálfu sér. Tarentino býður ekki upp á þann möguleika, enda myndin hans ekki gagnvirk svo maður bara pirrast. Og bardagasenurnar eru leiðinlegar. Og uppgjör skötuhjúanna í endann er annað hvort of stutt eða einhver annar galli á því sem gerir það að verkum að maður nær ekki að langa til að syrgja það þegar hún drepur manninn sem hún elskaði en gat samt ekki elskað. Út á það gengur öll myndin, stefnir að þessu lokaklímaxi sem fellur um sjálft sig.
En svo sá ég Himmel über Berlin nú í vikunni og það fannst mér góð mynd. Nick Cave var ekkert smá sætur og Peter Falk hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Og öll myndin er bara svo mannleg og yndisleg að maður var með stanlausan kökk í hálsinum af gleði og sorg. Snilld.
Fyrir löngu síðan fór ég að sjá Alice in the cities í bíó hérna og fannst hún líka frábær. Hún var sýnd í sjónvarpinu í gær en við gleymdum að taka hana upp. Það er gaman að sjá góðar bíómyndir og allt of sjaldgæf hamingja nú til dags sagði kerlingin og hló við fót.

En það sem við hjónakorn horfum yfirleitt á þegar við leggjumst í sófann er Malcolm in the middle. Á frönsku. Rosalega eru það nú skemmtilegir þættir maður. Alger unun. Setning úr þeim þáttum hefur ekki yfirgefið mig í nokkrar vikur: Ef ég hefði viljað fullkominn vinnumann hefði ég ráðið vélmenni eða Svía. Segir Ottó, þjóðverjinn sem rekur búgarðinn Grotto.
Þau eru svo djöfullega frábær öll fjölskyldan. Það hljóta að vera til gáfuleg skrif um þessa þætti, parallelluna við Friends og hvernig snilldin felst í anarkismanum en samt óhugnanlegri undirgefninni og sadómasókismanum... nenni ekki að gerast of "fræðileg" en þakka æðri máttarvöldum hver sem þau eru fyrir að Sólrún var alltaf í klukkutíma að drekka brjóst og ég fór að horfa á sjónvarp á eftirmiðdögum alveg óvart út af því og uppgötvaði tilveru Malcolms og fjölskyldu hans.

Lifið í friði.