blóð og fiskisúpur
Þegar ég gekk með alblóðuga dóttur mína um götur áðan, var ég A) fegin því að muna eftir hryllingnum sem mætti mér þegar Áki litli bróðir meiddi sig smá á enninu fyrir mörgum árum sem hjálpaði mér mikið við að minna mig núna á að líklega væri þetta bara smáskráma og fyrst hún hélt meðvitund og gat sagt hvað hún heitir og hvað hún er gömul ætti ég ekki að hníga niður í örvæntingu og B) glöð yfir því að hún datt bara sjálf eins og venjulegt barn að leik og að ekki var um að ræða sár eftir sprengju.Einhvern veginn tróðu sér alltaf fram í huga mér þessar dæmigerðu og vel þekktu fréttamyndir af foreldrum með særð börn á stríðssvæðum. Ég var reyndar öll út í blóði og föt okkar beggja þurfa eitthvað sterkara en milt fyrir barnið til að ná blettunum úr. Hópur barna safnaðist á eftir okkur og einn spurði m.a.s. hvort hún væri nokkuð dáin.
En Sólrún er hress, þetta var bara lítil sprunga í hársverðinum sem var klemmd saman með plástri hjá lækninum áðan.
Annars finnst mér tvímælalaust að ég eigi að stofna fiskisúpuhátíð í París. Eða Copavogure. Hafa t.d. á tveggja ára fresti stóra potta með íslenskri fiskisúpu, fá íslenskar hljómsveitir og listamenn og ekki leyfa neinum pólitíkus að hafa nokkur afskipti af þessu. Mig vantar hvatningu, ef ég fæ hana, lofa ég að láta af þessu verða.
Þangað til, getið þið lesið skemmtilega lýsingu hjá Gvendabrunni.
Lifið í friði og verum þakklát fyrir að þurfa ekki að óttast sprengjur neitt verulega mikið...
<< Home