tenglar og péningar
Sko, það var nefninlega eins og mig grunaði: Sumir minna bestu bloggvina vissu ekki af minni frábæru síðu parisardaman.com! Farfuglinn er búinn að bæta henni við í áhugaverða listann sinn og kann ég henni mínar bestu þakkir fyrir.Ég vil ekki vera of leiðinleg og ýtin en ég er bara að gera mér betur og betur grein fyrir því að allt of fáir vita af mér áður en þeir koma til Parísar, að ekki er bent á mig sjálfkrafa t.d. í Sendiráðinu sem ætti nú að sjá sóma sinn í því og að ég hef verið allt of hógvær. Allt of hógvær með þessa fínu síðu troðfullri af skemmtilegum og nýtum upplýsingum. PARISARDAMAN.COM er alls ekki það sama og rausið hér á blogspot. Fyrirsögnin hér er tengill í þá síðu og eins má sjá tengil í hana hér til hliðar, fyrsti tengillinn. Voilà. Þetta var svo erfitt að skrifa og ég var næstum því búin að þurrka það út rétt í þessu. En ég ætla að halda þessu inni því mig langar að geta haldið áfram að vera leiðsögumaður í París. Mér finnst Íslendingar skemmtilegt fólk, ég finn til samkenndar með þeim og mér finnst óendanlega gaman að hjálpa þeim að uppgötva bestu borg í heiminum, París.
Draumurinn er að koma á laggirnar litla fyrirtækinu sem selur máluð húsgögn og geta sinnt leiðsögn með. Ég á stefnumót við ráðgjafa hjá borgarstjóra í næstu viku. Bara að skrifa það gefur kitl í magann og kveikir löngun til að fara á klóið. En ég man einmitt hvað ég skalf og titraði þegar ég ákvað að verða sjálfstæður leiðsögumaður og þó ég hafi engar bansettar milljónir í laun á mánuði er ég ánægð með það sem hefur komið út úr því.
Hvernig nennir fólk annars að vera með milljónir í laun á mánuði? Það vita allir að þeir sem eru með milljón á mánuði eru þrælar. Þrælar fyrirtækisins og háu launanna. Það er nefninlega mjög erfitt að skrúfa sig niður í eyðslu og þess vegna getur fólk ekki hætt. Jú jú, sumir ná að koma sér á það hátt plan að ná að láta peningana ávaxta sig sjálfa og geta því hætt að vinna og snúið sér að því að lifa milljónamæringalífi sem felst, að því mér skilst, í því að elta sólina og djammið um heiminn allan ársins hring. Sumir djamma í friði og ró með vel völdum vinum (sem þurfa helst að eiga nóg líka því annars eru þeir afætur og hver vill eiga afætur að vinum?) á leyndum eyjum eða stórum skipum.
Kannski er þetta einum of mikil einföldum á afar flóknum hlut. En fólkið sem ég þekki persónulega og hefur há laun, lifir að miklu leyti fyrir vinnuna. Vinnur mun meira en 8 tíma á dag og hugsar stöðugt um vinnuna meðan það er í fríi. Ég myndi ekki vilja skipta við þetta fólk. En ég er bara ég og ég skil alveg að fólk langi til að þurfa ekki að hugsa vandlega um hverja einustu fokking krónu sem það notar. Það getur verið þreytandi og slítandi. En ég held að fullkomið tóm felist í ríkidæmi. Að þurfa aldrei að hugsa sig um, geta keypt hvað sem er án þess að þurfa að láta sig dreyma dálítið fyrst. Ég sé ekki tilganginn í slíkri aðstöðu. Ég sé ekki lífsgæðin í þess lags lífi. Ég finn miklu fremur vorkunn en afbrýðisemi gagnvart þessu ríka fólki.
Það má samt ekki gleyma því að ríkir einstaklingar eru oft mikil lyftistöng fyrir þjóðfélagið. Ég get t.d. nefnt Herra Sommerard. Hann var milljónamæringur sem keypti sér stórt einbýlishús í miðborg Parísar og sankaði að sér miðaldalist. Svo arfleiddi hann ríkið að öllu saman og þetta er eitt besta miðaldasafn í heiminum, Cluny-safnið sem þúsundir ferðamanna heimsækja og dásama á hverju ári. Gersamlega ómetanlegt. Mér skilst að einhverjir ríku kallanna á Íslandi séu afar listelskandi og styð eindregið pistlahöfundinn í Lesbókinni sem um daginn stakk upp á því að fá þessa grúppugaura til að byggja óperuhús fyrir okkur. Auðvitað!
Það sem mér finnst brandari, er að fólk með of há laun eigi "rétt á" fæðingarorlofi. Þar finnst mér virkilega vera stórt vandamál á ferð. Vitanlega á að vera almennilegt launaþak sem hindrar að of ríkt fólk geti krafist nokkurra bóta frá skítfátækuensemgætiveriðforríku velferðarþjóðfélagi okkar. Bótapeningar eiga að vera fyrir þá sem eru á venjulegum launum og fyrir fátæka, hinir oflaunuðu geta hreinlega bjargað sér sjálfir. Er þetta einhver spurning?
Mér finnst það óhæfa að einhver milljónalaunamaður fái ekki að halda vinnu sinni þó hann vilji í fæðingarorlof, þar sannast það sem ég sagði hér að ofan: þetta fólk er ÞRÆLAR. En milljónalaunamaður á að geta tekið sér LAUNALAUST eða a.m.k. BÓTALAUST leyfi til að kynnast nýju barni sínu og geta komið tvíelfdur til starfa aftur, þegar hann langar.
Ég tek það fram að allar fréttir af málinu hef ég af bloggsíðum og er því alls ekki að kryfja málið gáfulega til mergjar. Þetta eru bara mínar misvitru pælingar um péninga. Helvítis elsku péningarnir. Þeir munu hverfa. Einn góðan veðurdag munu börnin okkar líta upp úr sögubókinni, hrista höfuðið og segja hvert við annað: Hvernig tókst þeim þetta? Hvernig tókst þeim að gera hlutina og þetta skrýtna pappírsdrals að guði? Hvernig gerðist þetta nákvæmlega? Og mikið er ég fegin að hafa ekki verið uppi á þessum myrku tímum!
Þá verður veröldin góður heimur þar sem það sem skiptir máli verður á oddinum. Og peningar eitthvað skrýtið drasl í sögubók og inni á Árbæjarsafni í römmum.
Þið megið kalla mig draumóramann en ég er ekki ein...
Lifið í friði.
<< Home