15.8.05

Ég fékk beina spurningu í athugasemdakerfi Hreins Hjartahlýs frá Birni Friðgeiri: Hvernig á hann að borga mér fyrir leiðsögn ef ekki eru til peningar? Hann talar svo um að forritun í jafnlangan tíma og göngutúrinn tæki, kæmi ekki að neinu gagni og þar með finnst honum vöruskiptahugmyndin ekki hugsanleg milli okkar. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að svara þessu. Draumurinn er vitanlega að við lifum öll sómasamlegu lífi og getum gert það sem okkur langar, þegar við viljum og að við þurfum ekki að hugsa um peninga, því peningar eru ekki til. Þess vegna þarf ekki að borga mér.
En ef við segjum að enn sé við lýði einhvers konar hagkerfi (sem er hugtak sem BF segir að ég noti rangt, ég er ekki sannfærð um það) í breyttu þjóðfélagi, þá finnst mér alveg spurning um það hvort að fyrirlestur og göngutúr með mér um götur Parísar eigi að mæla í sama tímaeiningaverði og forritun. En þetta yrði dálítið flókið og leiðinlegt reiknisdæmi og því ætla ég ekki að ganga lengra í því að spá í það. Enda yrði tíminn alls ekki álitinn peningar í mínu draumaríki. Það er ein af þessum kapítalísku leiðindaklisjum sem ég geri mikið í að reyna að losa heiminn undan. Tíminn er ekki peningar. Munið það öllsömul! Tíminn er mun dýrmætara fyrirbrigði en það sem hægt er að mæla í peningum.
Hinn sami Björn Friðgeir skrifar í athugasemdakerfi Hildigunnar að götusópari og heilaskurðlæknir ættu að fá sömu laun. Ég held að hann hafi verið að meina með þeirri athugasemd að þetta væri fásinna.
Persónulega finnst mér það alls ekki óhugnanleg tilhugsun að götusópari og heilaskurðlæknir hafi sömu laun. Hins vegar er ég alveg tilbúin til að viðurkenna að götusóparinn getur byrjað 16 ára að vinna, meðan heilaskurðlæknirinn getur ekki byrjað fyrr en... hvað ætli þetta séu mörg ár? 12? Segjum að hann geti byrjað að vinna 32 ára. Hann hefur því "tapað" launum í öll þessi ár sem hann stundaði nám. Í mínum draumaheimi fékk verðandi læknirinn allt sem hann þurfti meðan hann stundaði námið, hann gat gengið í forðabúrið eins og allir hinir og leið aldrei eins og hann væri að tapa einhverju á því að vera í námi. Sem er enn ein af þessum ömurlegu klisjum sem koma upp nú til dags í sambandi við umræður um launakjör og annað.
Götusóparinn er líklega ómenntaður og hefur því tapað af fleiru í mínum huga en vesalings heilaskurðlæknirinn. Götusóparinn vinnur alveg nákvæmlega jafn göfugt og nauðsynlegt starf. Götusóparinn er maður sem við eigum öll að líta upp til og við eigum að vera þakklát fyrir að enn skuli fyrirfinnast fólk sem nennir að þrífa undan okkur skítinn. Maðurinn er svín og skilur leifar af ofneyslu sinni eftir sig um götur og stíga. Það höfum við vel fengið að kynnast hér í landi þar sem götusóparar eru með bein í nefinu og fara í verkfall þegar þeim líkar ekki ákvarðanir yfirvalda.

Mér þykir afar leiðinlegt að rífast um svona ómerkilega hluti eins og peninga. Ég hef ekki sömu sjónarmið gagnvart þessu fyrirbrigði og margir aðrir og mér er alveg sama um það. Mér er alveg sama um það að sumir hafa þörf fyrir að safna peningum og að aðrir fara mjög illa með peninga og að enn aðrir synda í kringum núllpúnktinn. Fólk hefur allan rétt til að lifa lífinu eins og því langar sjálfu. Og má bera virðingu fyrir peningum mín vegna. Eða bera virðingu fyrir fólki sem á peninga. Eða ekki.
OG ég held að Björn Friðgeir sé alveg ágætis maður. Bara dálítið mikill hagfræðingur... og kerfiskall... eða ekki...
Mér er sama. Kaupæði, málæði, erðett'ekki brjálæði?
Það dregur úr mér allan mátt að pæla of mikið í þessu.

Pælum frekar í þessu:
Í París ber ekkert safn eða minnismerki nafn konu.
Fjögur "avenue" heita eftir konum, tvær þeirra eru dýrlingar og hinar eru Viktoría drottning og andpyrnuhreyfingarkonan Bertie Albrecht.
Ein metróstöð ber kvenmannsnafn: Louise Michel.

Hvílíkt óréttlæti sem þarna er á ferðinni. Og mun skemmtilegra að berjast fyrir fleiri kvennöfnum á staði í París en jafnan rétt til sómasamlegs lífs þegna jarðarinnar. Að minnsta kosti, vonandi, ekki eins djöfulli vonlaus og barnaleg barátta.

Lifið í friði.