8.5.04

Jæja, ég er þá loksins mætt inn á netið eins og ég lofaði fyrir margt löngu síðan. Ég geri mér ekki grein fyrir hversu mikinn tíma ég mun hafa til að skrifa hugleiðingar mínar hingað inn, en ég get sagt ykkur það að mitt fagra höfuð er að springa, þörfin er því mikil. Þar sem ég fór út í að stofna þetta núna bara alveg óvart, hef ég ekkert þema í huga akkúrat núna. Kannski ætti ég bara að byrja að segja dálítið frá sjálfri mér?
Ég hef heyrt mikið um bloggið og fann strax að þarna var miðill sem gæti hentað mér vel. Þar sem ég hef hins vegar verið í útlegð frá Vefnum í fjóra mánuði, hef ég ekki lesið mikið annarra manna blogg. Ég er því, ef svo má að orði komast, "hrein mey" á blogginu. Kannski verður það mér fjötur um fót, en kannski ekki. Tíminn verður að leiða það í ljós.
Ég er 34 ára, búsett í París (reyndar í úthverfi, einhvers konar Kópavogi ef ég á að reyna að líkja þessu við íslenskar aðstæður) og hef verið hér síðan 1989, ef frá eru skilin tæp 3 ár sem ég eyddi á Fróni í mislukkaðri tilraun til að flytja aftur "heim". Ég á tvö börn og einn kall (sem er alveg nóg, bæði hvað varðar barnafjölda og karlafjölda). Ég er leiðsögumaður og altmuligmanneskja og er að springa úr hamingju yfir lífinu sem hefur yfirleitt bara verið gott. Leiðinlegt? Ekki hafa áhyggjur, ég lofa því að ég er ekki þessi síbrosandi væmna týpa heldur frekar þessi reiða vinstisinnaða týpa. Ég hef oft miklar skoðanir á hlutunum og stundum kannski aðeins of miklar og vanhugsaðar en mér er alveg sama, ég vil frekar það en að vera sú sem yppir bara öxlum og segir: "já, en, svona er þetta nú bara og hvað get ég svo sem gert í því?". Ég ÞOLI EKKI tilhugsunina um það að maður geti ekki gert neitt í hlutunum. Við ERUM heimurinn og heimurinn er það sem við gerum hann að. (Embla, þetta er einmitt það sem við vorum að ræða með Íslendingafélög í útlöndum, félögin eru náttúrulega bara félagarnir og það sem þeir gera úr félaginu). Ef ég er "góður" heimsþegn, hlýt ég að gera heiminn að betri stað, alveg eins og ef ég er "slæmur þegn" geri ég illt verra. Nú þarf bara að skilgreina gott og slæmt og þá fara nú málin að flækjast. En ég hef reyndar ágætis siðferðisvitund og reyni að vera henni samkvæm þó ég bæði blóti stundum og sé frek. Nánar um allt þetta seinna, nú er komið að hádegismat.