5.7.08

bók eða youtube, sá á kvölina...

Á kvöldin eftir mat er siður að mamman les bók með krökkunum og svo segir pabbinn sögu um litla álfinn sem varð til í fyrstu tjaldútilegunni þegar krakkarnir voru mjög óöruggir með sig og myrkrið of mikið til að skoða bók.
Stundum er pabbinn ekki heima og þá er litli álfurinn ekki heldur heima, mamman lætur sér ekki detta í hug að reyna að koma í staðinn fyrir pabbann í þeirri spunasögu sem þau eiga þrjú sín á milli.
Stundum er mamman ekki heima og fljótlega fór pabbinn að flakka með krökkunum á youtube í sófanum þar sem vaninn var að lesa bók. Og núna þarf mamman stundum að láta eftir þeim að skoða frekar tölvuna heldur en að lesa bók, enda getur ferðalag um þessa undraheima stundum alveg verið lítillar sögustundar virði - þó mamman haldi vitanlega í hvert skipti stutta ræðu um mikilvægi þess að lesa.
Í gær og fyrradag höfum við skoðað myndbönd Bjarkar og hefur Sólrún tilkynnt að hún sé hætt við að vera blómadrottningin í næsta afmælinu sínu og ætli að vera Björk í staðinn. Og hún er líka búin að biðja um að fá að komast á tónleika eða "spectacle" (sýningu) með Björk hvernig sem hún fór að því að skilja að Björk væri stundum með sýningar eða tónleika. Henni hefur nú verið lofað því að koma með á næstu tónleika Bjarkar í París.
Síðast þegar ég reyndi að komast á tónleika með Björk var í Reykjavík 1998 eða 1999, hávetur, Þjóðleikhúsið, löng röð, skítafokkingkuldi, hurðin opnast, miðar uppseldir fimm mínútum síðar. Fór sneypt og blá af kulda heim.
Hins vegar er ein af bestu tónleikaminningum mínum líklega þessi: Ég var 13 ára og mætti að til sjá Purrk Pillnikk (viðbót: ÉG MEINA VITANLEGA TAPPA TÍKARRASS) í Fellahelli. Eftir gott stuð í nokkra stund tilkynnti Einar í míkrófón að allt væri búið. Þau ætluðu í smá pásu en hann er svoddan húmoristi að svona var það sett fram. Við vinkonurnar stóðum þarna fremst og færðumst ekki úr stað þó hljómsveitin gengi niður af sviðinu. Hins vegar tæmdist salurinn og þegar hljómsveitin steig aftur á svið kom í ljós að allir höfðu farið heim fyrir utan okkur tvær og kannski tvo til fjóra í viðbót (kannski vorum við 10, en í minningunni vorum við bara tvær svo ég fer milliveginn). Frekar undarleg aðstaða en þau ákváðu bara að skemmta okkur hræðunum sem höfðum fattað undarlegan húmor Einars, héldu áfram og allt fór á mjög persónulegar nótur, settumst öll niður og hljómsveitarmeðlimir spreyttu sig á ýmsum spunaverkum o.s.frv.
Svo lauk tónleikunum og á leiðinni út hafði ég mig upp í að biðja þau um eiginhandaráritun þar sem við vorum nú öll búin að vera að blaðra saman. Það var auðfengið og ég held að ég eigi einhvers staðar ennþá þetta pínulitla umslag sem ég hafði í vasanum og þau skrifuðu öll nöfnin sín á og sem hékk svo á heiðursstað á korktöflunni minni öll unglingsárin. Björk var að skrifa þegar mamma vinkonu minnar kom að sækja okkur og Björk fór þá öll í hnút, fannst hún eitthvað hallærisleg þarna að skrifa nafnið sitt fyrir framan fullorðna manneskju.
Mér finnst Björk alltaf alveg frábær, flottur tónlistarmaður og aðdáunarvert hvernig hún hefur náð að komast á toppinn, ég meina, gerið þið ykkur grein fyrir því að ég hef hitt háaldraðar franskar þurrpumpulegar búrgeisakerlingar sem hafa farið að tala um Björk? Það er engin leið að ímynda sér hvað hún hefur í raun náð til margra.

Og nú eru krakkarnir að horfa á youtube með pabbanum því hann hitti þau svo lítið í dag. Hann er að sýna þeim Marilyn Monroe. Sénsinn að Sólrún fái að vera hún í afmælinu sínu!

Og nú er ég alveg orðin svona youtube iPod gella, bara svo þið vitið hvað þið eruð að eiga við hérna.

Og mér fannst ég þurfa að hefja þriðju málsgrein á Og, annars gæti fjölskyldan mín farist.

Lifið í friði.