au revoir, la citroën verte
Ég er búin að ganga frá því að bíllinn minn verður líklega seldur í parta. Ég mun aldrei viðurkenna að ég beri tilfinningar til bílsins, en hann hefur þjónað okkur eins og þurft hefur í rúm 4 ár og það kann ég vel að meta.Þegar ég tók ákvörðun um að kaupa mér bíl á sínum tíma var það til að tryggja að ég einangraðist ekki í úthverfinu með tvö pínulítil börn og enga gæslumöguleika. Ég hef, að ég held, staðið mig ágætlega í að ofnota hann ekki, um leið og börnin fóru að geta gengið sjálf upp og niður stiga fór ég að fara allra minna ferða með þau um París í metró eins og ég geri þegar ég er ein. Bíllinn hefur aðallega gegnt hlutverki skólabíls og verið nýttur í stærri innkaupaferðir.
Svo hef ég stundum stolist til að fara með ferðalanga á honum til Versala og var einhvern tímann sagt að bílferðin hefði verið hápunktur Frakklandsferðarinnar, þeim fannst þau alveg komast í fótspor innfæddra þegar ég steytti hnefa úti á hraðbraut.
Dálítið skemmtileg tilhugsun að síðasti farþeginn í Versalaferð var íslensk stórstjarna sem hefur m.a. fengið umfjöllun í fjölmiðlum út á bílaáhugann.
Undanfarna daga hef ég dálítið spáð í það að verða bíllaus á ný en það er samt of freistandi að hafa blikkbelju áfram á heimilinu. Ég get ekki hugsað mér að þurfa endalaust að vera að biðja vini um lán á bíl, að komast ekki í Ikea eða Carrefour þegar mér finnst ég þurfa (og hef tíma) og auðvitað er ómetanlegt að geta hent tjaldi og svefnpokum í skottið og rokið upp í sveit þegar þráin gerir vart við sig (og tíminn leyfir).
Svo nú er ég að skoða auglýsingar og er vitanlega kominn með einhvern undarlegan verk í bakið, einfaldlega af stressi yfir því að þurfa að fara að hafa samband við fólk sem er að selja bíla sem ég get ómögulega vitað hvort eru góðir eða ekki. Ég fæ aðstoð við að sigta út spennandi auglýsingar og kannski getur aðstoðarmaðurinn komið og litið á tækin með mér í næstu viku en eins og er finnst mér ég dálítið ein í þessu máli.
Ég vorkenni mér þó ekki neitt voðalega mikið því ég er fullkomlega meðvituð um að þetta er lúxusvandamál og óverulegt miðað við ýmislegt sem aðrir í kringum mig þurfa að glíma við.
Lifið í friði.
<< Home