3.7.08

mótmælastaða á morgun

Á morgun, 4. júlí á milli 12:00 og 13:00, verða mótmæli fyrir utan dómsmálaráðuneytið í Skuggasundi. Þar verður þess krafist að Pauli Ramses verði snúið aftur til Íslands og fjallað um mál hans hér. Mætið og látið í ykkur heyra. Tekið af síðu Arngríms.

Ef rétt er farið með, sótti Paul Ramses um pólitískt hæli á Íslandi í kringum áramótin, en fékk aldrei svar. Það hlýtur að vera skýlaus krafa að lýðræðisríki láti svo lítið að svara umsóknum með rökstuðningi. Hvort sem beiðni er samþykkt eða neitað, hlýtur hver einasta manneskja að eiga rétt á eðlilegum samskiptum við yfirvöld.
Hér í Frakklandi er alla vega reynt að sjá til þess að allir flóttamenn sæki um hæli og fái svar áður en þeim er vísað úr landi. Einnig hafa margir þeirra (þori ekki að fjölyrða um hvort það á við um alla) tíma til að áfrýja niðurstöðu og veit ég að tengdafaðir minn hefur átt við eitthvað af slíkum málum í Conseil d'Etat, Ríkisráðinu, sem er lögfræðiráð sem ver stjórnarskrárbundinn rétt manna og gefur lögfræðiálit í málum sem talin eru brjóta gegn henni.
Mér virðist stundum ríkja einhvers konar forneskjuleg trú að á Íslandi þurfi ekki alltaf að fara eftir öllum reglunum, sérstaklega ekki ef um útlendinga er að ræða. Ég minni t.d. á fangelsun Miriam Rose í haust.
Málið er að megnið af þessum reglum koma frá alþjóðlegum samþykktum og mannréttindi eru hvorki né eiga að vera bundin við ákveðinn þjóðflokk eða ríkisfang á ákveðnum stað.

Lifið í friði.