5.7.08

hátt enni beint nef

Íslenska mamman á mjög bágt með sig þegar 4 og 1/2 árs drengur furðar sig á því að ekki skuli koma neitt f í Joseph, mest langar hana að segja honum að frönsk stafsetning sé bull og vitleysa en í staðinn býður hún hann bara velkominn í frumskóginn. Það er alveg magnað hvað hann er duglegur að skrifa alls konar orð eftir hljóðum, systir hans nennir þessu ekki.

Í gær vígði ég iPod sem maðurinn minn gaf mér í próflokagjöf. Hann er búinn að liggja í tækjakörfunni síðan í maí, því ég var ekki með neina tónlist í tölvunni minni. En í gær hlóð ég inn nokkrum diskum og fór í vinnuna með íslenska tónlist í eyrum. Það var hálfundarleg tilfinning að hlusta á Bubba, Þursana og Todmobile í metró. Ég er reyndar bara ekki viss um að ég kunni vel við að vera svona einangruð frá umhverfinu. Hins vegar mun tækið nýtast mér í hjólatúrum meðfram skipaskurðinum og í skokkinu.

Á heimleið áttaði ég mig á því að það er mjög undarlegt að ég skyldi ekki byrja á því að hlaða Bowie inn, líklega er það heimþráin, ég þrái það að sitja í íslenskum móa með fuglahljóð í eyrum, svalan andvara og miðnætursól. Ég dauðsé eftir því að hafa ekki ákveðið að koma heim en um leið er ég mjög sátt við að ætla að eiga 10 daga úti á Normandí og hlakka til.
Rifin í tvennt. Það var ágætt að átta sig á því að þannig yrði þetta alltaf, en samt er það stundum dálítið sársaukafullt. Ég get þó alltaf huggað mig við að þetta er val, bæði íslensk og frönsk stjórnvöld láta mig í friði og vilja leyfa mér að vera. Ég er þakklát fyrir það.

Lifið í friði.