1.7.08

auðkennislykillinn

Ég er búin að leita að auðkennislyklinum í nokkra daga. Hef ekki fengið af mér að játa að ég hafði líka týnt honum, fyrr en núna, að hann er fundinn. Bíllyklarnir eru hins vegar tröllum gefnir og búið að dæma í því máli á þann veg að bíllinn verður seldur tryggingafélaginu í bílaparta. Of mikið mál að koma honum aftur á götuna, of mikill kostnaður. Svo nú þarf ég að fara að leita að nýjum bíl, þ.e.a.s. gömlum bíl sem ég hef efni á.
En nú þegar auðkennislykillinn er fundinn, liggur vefur Landsbankans niðri. Það finnst mér óþægilegt og vænisýkin vellur upp í mér. Þá gæti grunað hvert ég ætla að senda peninga.

Hér er 30 stiga hiti og alblár himinn. Ég þarf að fara á markaðinn og kaupa fullt af grænmeti og ávöxtum og svo ætla ég að skipta á rúmunum, um að gera að nota svona þurrkdag til að þurrka lök og ver.

Þegar öllu þessu er lokið er það næsta sem ég gjöri að fara út í garð með bók og jafnvel með tölvuna, er ekki alveg búin að ákveða það. Ég ætla að reyna að vinna aðeins í síðunni minni og fá smá lit á loðnar lappirnar í leiðinni. Ég er aftur að glíma við sömu spurningu og í fyrra, raka eða ekki að raka?

Lifið í friði.