1.7.08

vellíðan í vanlíðan

Mér líður dálítið eins og ég hafi stolist til að kaupa mér einhverja lúxusvöru. Samt er þetta góð tilfinning og ekkert samviskubit sem ég hefði pottþétt ef ég hefði splæst í ofmetið glingur úr tískubransanum. Í raun og veru var ég einmitt að reyna að kaupa lúxusvöru sem mig langar til að gefa heiminum, gefa þér, með því að leggja smá pening inn á reikning Saving Iceland.
Ef þig langar að gera það líka, getur þú haft samband við mig eða þau sjálf á netfangið savingiceland hja riseup.net til að fá reikningsnúmerið gefið upp.

Ég hef stundum velt þessu fyrir mér með muninn á aðgerðum sem felast í borgaralegri óhlýðni sem ríkisvaldið tekur að sér að refsa fyrir með dómum upp á sektir eða fangelsisvist og mjúkum aðferðum sem felast í ljóðalestri eða tónleikahaldi.

Ég dáist að fólki sem tekur það að sér fyrir mig og þig að taka áhættuna sem felst í aðgerðum. Sjálf er ég hrottalega hrædd við tilhugsunina um handtöku og fangelsisvist. Ég held að ég myndi grenja og pissa í buxurnar ef ég lenti í handjárnun, yfirheyrslum, skýrslutökum, setu í fangaklefa... ég er ein af þeim sem refsikerfið virkar stórfínt á.
En ég er ekkert stolt af því og ég get alveg gefið út þá yfirlýsingu hér og nú að ef yfirvöld halda áfram að sýna réttinum til að mótmæla ámóta vanvirðingu og hingað til mun ég líklega brjóta niður þessa hræðslu í sjálfri mér og rísa upp. Enda veit ég, líkt og flestir og yfirvöld líka, að styrkurinn mun einmitt felast í því að nógu andskoti margir mæti og mótmæli, hlekki sig við vélar, stöðvi umferð og sýni með öllum tiltækum ráðum óánægju sína með framkvæmdirnar. Ef við erum tvö þúsund, hvernig ætti lögreglan þá að fara að því að handjárna okkur öll, geyma okkur og yfirheyra og draga svo fyrir dóm?
Sjálf er ég í raun og veru meira svona týpan sem færi og læsi ljóð og blési sápukúlur út í vindinn til að sýna óánægju mína. En það hlýtur að vera hrottalega frústrerandi tilhugsun að hafa haldið alls konar uppákomur og gjörninga og sjá svo bara vinnuvélarnar mæta og ryðja sviðinu í burtu. Það hlýtur að bærast efi í brjósti þeirra hjá Sól á Suðurlandi um að kannski hefðu þau átt að vera harðari. Hvernig er það, eru framkvæmdir annars hafnar við Þjórsá?

Ég skammast mín fyrir íslenskt réttarkerfi. Hvað finnst þér um þennan dóm?

Lifið í friði.