7.4.08

það sem er best

Það sem er best er þegar kennarinn lætur skína sterkt í aðdáun sína á námsefninu. Ástríða er góð og hvetjandi.

Það kom fyrir minn kennara um daginn, kraftarnir sem toguðust á í beygingu ákveðins nafns voru svo flottir og sýndu hvað það er spennandi að vera málfræðingur.

Ég gleymi aldrei stærðfræðikennaranum sem "barst mér" í 5. bekk í MR. Honum tókst, aðallega með ástríðu sinni sem hann deildi svo grimmt með okkur nemendum, að rífa mig upp um heila þrjá til fjóra í faginu eftir einn vetur í niðurlægjandi lélegri kennslu hjá sjúkum manni.
Birgir stökk um stofuna til að horfa á sannanirnar frá mismunandi sjónarhornum eins og um olíumálverk væri að ræða en ekki óskiljanleg tákn á rykugri töflu. Gat hann annað en smitað okkur nemendur? Hann smitaði mig í það minnsta og ég hefði vaðið eld og brennistein til að gera hann kátan með árangur minn.
Alveg eins og ég ætla mér að gera kennarana núna í það minnsta sátta við árangur minn, þó það þýði töluverða vinnu og líklega fjarveru frá heimilinu á næstunni. Ég skal.

Lifið í friði.