2.3.08

hann deyr örugglega í lokin... eða hún

Lýsing á reglubundnum venslum milli merkingargreinandi einda málsins.

Svona setningar þarf ég ekki eingöngu að lesa heldur einnig skilja. Er það nema von að einbeitningin sé ekkert gífurleg á þessum sunnudegi? Ekki það að veðrið sé boðlegt til annars en að liggja undir teppi með tebolla og bók (eða tölvu) í hönd en einhvern veginn næ ég ekki að lesa neitt af viti.

Við ætlum að hætta okkur út í rokið og fara að sjá nýjustu De Palma sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir né hver leikur í henni. Mér finnst best að fara þannig í bíó, vita sem minnst hverju ég á von á. Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki er það þegar fólk byrjar að útskýra fyrir manni söguþráð og svo þoli ég ekki heldur þegar allir eru samdóma um snilld verka, þá fer ég í öfugsnúning og býst við hinu versta, sem reynist oft rétt afstaða.

Sem betur fer tókum við langan göngutúr í París í gær og kíktum m.a. á sögusafnið þar sem við skoðuðum hinar ýmsu myndir af París í gegnum tíðina og spáðum í myndræn götuskilti sem voru gerð fyrir ólæst fólk.

Ég er örþreytt og löt í dag, örþreytt en sæl. Ekki einu sinni merkingargreinandi eindir geta eytt sælutilfinningunni. Skíðaferðir eru góðar, um það bil þúsund sinnum betri en sólarfrí, reiknast mér til.

Kannski getur þó svar við fyrirspurn sem ég sá fyrst í dag, varðandi blessað miðannarverkefnið sem ég skilaði ofan úr fjalli aðeins slegið skugga á daginn, mín úrlausn er rétt rúmlega tvær síður en kennarinn talar um að þrjár til fjórar séu eðlileg lengd! Ég vona að ég hafi ekki verið algerlega úti að sk... ég sem fórnaði þremur morgnum á skíðum í brölt við að þröngva mér í gegnum þessar þrautir, var ég svo að misskilja eitthvað, átti þetta að vera ritgerð? Ég bara svaraði skýrt og skorinort með mínum knappa stíl sem þið lesendur hljótið að kannast svo vel við hjá mér, engar málalengingar eða útúrdúrar hér, ha?

Lifið í friði.