2.3.08

skíða skeið skiðum skiðið

Skíðafríi lokið, það er gott vont eins og vanalega. Gott að koma heim. Vont að fara úr fjallaloftinu, snjónum, ostunum og hvítvíninu.
Ferðin niðureftir var púl, allt of mikið af bílum á vegunum, en börnin fjögur eru svo vel upp alin og skemmtileg að það fór nú allt á besta veg. Það lá þó við að bílstjóranum yrði hent út þegar hún ætlaði að syngja Tíu grænar flöskur niður á við líka. Sumt fólk kann ekki að meta góðar heilaæfingar og hefur gleymt því hvað þetta var spennandi þegar maður var barn.

Margmennið í fjöllunum truflaði nákvæmlega ekki neitt, þetta er svo stórt svæði að það gleypti allt innihald bílanna og lestanna og dreifði því svo vel að sjaldan þurfti að bíða lengi eftir lyftum. Og brekkurnar eru meiriháttar þarna.

Veðrið var eins og best verður á kosið, sól suma dagana, köflótt stundum og svo grenjandi rigning daginn sem við fórum heim. Fíla það alltaf vel og þess vegna heppilegt fyrir mig að oftast er ég að fara burt frá Íslandi svo langoftast fæ ég að fara í rigningu.

Hnéð á mér lét ekkert á sér kræla, skíðaði eins og drottningin sem ég er án þess að þurfa nokkru sinni að hafa áhyggjur af mínum ársgömlu meiðslum. Fór ekki í pílagrímsferð í brekkuna ógurlegu, sökudólginn.

Maturinn í fjöllunum tryggir að þrátt fyrir góða hreyfingu tapast ekki eitt einasta gramm af fögrum líkama skíðaiðkenda. Ostar, pylsur og vín fljóta þarna um og gvuð mín góð hvað það er allt saman gott á bragðið. En mikið var nú gott að fá sér þistilhjörtu, maríneraða tómata og linsubaunasalat í gær.

Fjölskyldan mín er flott fólk, ekkert vesen, ekkert rifrildi, allir glaðir, kátir, sáttir og þakklátir.

Ég sá blindan mann skíða niður bratta (rauða fyrir innvígða) brekku, hélt í hendina á sjáandi konu.

Ég sá fjölfatlaða konu skíða niður í sérstökum skíðastól sem ýtt var af heilbrigðri konu.

Ég sá tvo drengi á táningsaldrinum koma skíðandi niður á stuttbuxum og hélt annar þeirra á bjórkassa á öxlinni.

Ég sá karlmann missa sig við dóttur sína því hún hafði gleymt vettlingunum sínum heima. Mamman fór úr sínum vettlingum og lét snótina fá. Pabbinn hnussaði að alltaf væri þetta eins. Þar hitti hann naglann á höfuðið.

Ég sá reyndar marga foreldra æsa sig hástöfum við börnin sín og það kom fyrir mig fyrstu tvo dagana að verða dálítið pirruð þegar þau létu sig lyppast niður í snjóinn með skíðin í kross og gerðu ekkert til að hjálpa til við að komast aftur á réttan kjöl (er þessi notkun viðeigandi?). Þau eru nefninlega slatta þung með hjálmana og á skíðunum og þar sem maður stífnar allur upp við að reyna að hjálpa þeim, verður maður ósjálfrátt einhvern veginn æstur þegar þau gera sig að slyttum. En ég ákvað meðvitað að hætta að láta þetta fara í taugarnar á mér, þökk sé æsta liðinu í kringum okkur og eftir það gekk allt mun betur.

Sólrún, Ívar og Soffía skíða um allt og kunna að beygja og bremsa.
Kári fór bara einu sinni upp í stóru brekkurnar og stóð á milli fóta minna niður, fyrst stífur og hræddur, svo losnaði um málbeinið og fékk ég þá að heyra ýmsar sögur af varúlfum og öðrum skógardýrum, gat því miður ekki tekið hann upp.

Ferðin heim gekk eins og í sögu, lentum aldrei í umferðarhnútum og náðum að stoppa bara einu sinni ef ekki er talið með skiptið þegar ég tók við stýrinu af Gullu en þá renndum við inn á afreinina og víxluðum á sætum meðan bíllinn rann áfram (þetta eru bókmenntalegar ýkjur) og töpuðum bara 30 sekúndum.

Ég er búin að lesa slatta af bloggum og bið forláts á því að hafa náð að smita einhverja af skíta- og gubbupestum. Ég á enn slatta eftir, klukkan er 8.32 á sunnudagsmorgni, ég vaknaði klukkan 7.30, fékk dásamlega gott kaffi í bolla og ligg með tölvuna uppi í rúmi. Börnin fóru beint upp í sveit með foreldrum drengsins sem við höfðum með okkur á skíði, við erum því hér barnlaus og eirðarlaus foreldrarnir en finnum okkur áreiðanlega eitthvað skemmtilegt að gera, til dæmis þarf ég að fara í gegnum marga tugi tölvupósta, gera svo sem eins og eitt skólaverkefni og hlusta á tíma síðustu viku og svo á ég að vera að vinna í dag. Stefni á að rjúka í sveitina strax á þriðjudag ef mögulegt er.

Hér er grátt og móskulegt og 12 stiga hiti. Mannmergðin í París er þéttari og agressívari en sú í fjöllunum.

Lifið í friði.