26.3.08

minningar

Ég er búin með Minnisbók og stóð við það að byrja strax á henni aftur. Sé ekki eftir því.

En auðvitað les ég í litlum skömmtum því mitt helsta lestrarefni þessa dagana fjallar um morfem og fónem, eða myndön og hljóðön, sem mér finnst falleg orð og reyni að nota, en það er samt ótrúlega erfitt.

Ég er komin í hálfgert panikástand varðandi prófin. Það er stutt í þau, nú senda kennarar manni m.a.s. æfingaverkefni fyrir lokapróf og alls konar annað stöff sem fær magann hreinlega til að snúast við. Prófskrekkur er mættur. Og apríl ansi bissí mánuður í vinnu þar að auki.
Ég verð að ná þessu. Svo er ég byrjuð að búa til umsókn um framhaldsnám, M.A.-nám í þýðingarfræðum. Samt veit ég ekkert hvort eitthvað verður af því eða hvort ég verð bara orðin stöndug bissnesskelling áður en ég næ að snúa mér við. Eða dauð úr prófskrekk?
Ég skil ekki hvernig Sigurður Pálsson náði að lesa allt þetta sem hann las fyrir utan almennt námsefni.

Best að reyna að klúðra út úr sér verkefni dagsins, dagurinn styttist aðeins óforvarendis hjá mér í gær svo ekki varð því lokið.
Ég get nefninlega alls ekki sleppt stefnumótinu sem ég á í eftirmiðdaginn. Þá fer ég að hitta hana Stephanie Simon sem leigði með mér í París fyrir margt löngu síðan. Svo flutti ég út og stuttu síðar flutti hún út um miðja nótt eftir að hafa safnað saman dótinu sínu klofandi yfir fylleríisdauðar manneskjur sem lágu á víð og dreif um blessað fyrrverandi heimili mitt. Hún bara hvarf og spurðist ekkert til hennar fyrr en að hún fann mig á blogginu fyrir nokkru síðan. Hún er þýsk, bjó í Englandi þegar hún fann mig en er nú flutt til Svíþjóðar með mann og 2 stráka. Ég hlakka mikið til að fá að hitta hana aftur. Spennandi verður að sjá hvort við eigum eftir að rifja upp gömul minningarbrot eða hvernig spinnst úr samtalinu.
Hún á alnöfnu sem er söngkona í Las Vegas og því réð Google aldrei við að finna hana fyrir mig. Kristín Jónsdóttir gúgglast hins vegar helvíti vel.

Lifið í friði.

Lifið í friði.