22.6.07

Raus, ekki fyrir viðkvæma og ljóðelska

Ég er illa haldin verkstoli eða verkkvíða. Reyndar eru tveir hlutir sem ég þarf að gera svo ógnvekjandi að ég held að ég muni fresta því fram á mánudag. Þá get ég líka haft kvíðahnút í maganum yfir þeim alla helgina. Æði.
Best að halda áfram að fletta bloggsíðum og gera mislukkaðar tilraunir til að hlusta á útvarpið. Það er einmitt mjög gott fyrir geðheilsuna að hlusta fimm sinnum á byrjun á hugleiðingu sem slitnar svo alltaf á nýjum og nýjum stað, stundum aðeins fyrr en áðan, stundum aðeins seinna. Alveg til að gera fyrir manni daginn. Vitandi að hlustunin er í raun tímasóun. Sóun. Fróun samt væri það ef ekki væri fyrir slitrótta netsambandið.

Vika í brottför. Íbúð þarf að vera fullkomin fyrir skiptigestina, gluggarnir, gluggakarmarnir, loftristarnar, ofan á skápum og hillum, baðherbergið er ein rúst, hvar er kraftmikil borvél?, passa að hafa hreint á rúmin og hrein handklæði, raða helv. pappírsflóðinu snyrtilega í möppur, væri ekki ráð að koma skikki á myndir og þessháttar líka?, alla vega þarf hrúgan að hverfa eitthvert, en hvert?, pönnur og pottar eru húsnæðislaus út af smá kranavandamáli, hvað er málið með krana sem lekur stundum en ekki alltaf?, setja föt sem eiga að fara með ofan í töskur, hin fötin í IKEAgeymslupoka og niður í geymslu...

Sjúkrasamlagið er með stæla. Á ég að redda því eða humma fram af mér?

Eftir rétt rúma viku er ég svo bara komin upp í flugvél og í frí! OUI!

Hvernig er það annars, verður ekki hlýtt á Íslandi í júlí?

Á ég að gera eitthvað í líkamshárum áður en ég fer að fara daglega í sund?

Get ég fengið frí í vinnunni, get ég fengið að fara fyrr heim í dag?

Lifið í friði.