4.6.07

góðar helgar

Góðar helgar verða einhvern veginn betri þegar þær koma óforvarendis. Það var búið að spá drulluveðri, rigningu og roki en í staðinn var sól og hlýtt án þess að vera of heitt.
Laugardagurinn var fínn, flóamarkaður og stúss og göngutúr í "skóginum okkar".
Á sunnudeginum létum við ekkert koma okkur á óvart, drifum allan tiltækan mat í nestiskörfu og rukum í alvöru skóginn í Vincennes. Þar lágum við á teppi með vín og osta, börnin hjóluðu, fótboltuðust, frisbíuðust og gáfu öndunum örlítið af dýra fína sveitabrauðinu okkar.

Sólrún hjólar án hjálpardekkja en tókst að detta svo rækilega á hausinn að hún er með svöðusár á fótum og höndum. Lítur allt mjög illa út og mikið var grátið. Sem betur fer voru mömmur með betri útbúnað en ég, hún fékk bæði spritt og plástur á bágtið strax. Það tekur alltaf smá tíma að komast upp á lagið með skógarferðirnar á vorin. Samt á ég lista, sem ég hef dundað mér við að gera í tölvunni, ég bara kíki ekki á hann í látunum við undirbúning.

Ég gerði fæst af því sem ég ætlaði mér þessa helgi, en naut hennar hins vegar til hins ítrasta. Svo það er ekki einu sinni vottur af samviskubiti. En nú eru ermar uppbrettar, vatn í glasi, te á brúsa, ljúfir tónar Kvennakórsins í tækinu og nú skal svara meilum, ganga frá pöntunum, redda málunum. Búin að þvo bílinn og ryksjúga, hann er því tilbúinn í Versalaferðina á morgun.
Hey, ég er alveg eins og launaþrælarnir núna: Mánudagur í vinnunni! Gaman að því svona stundum.

Lifið í friði.