1.6.07

brosað gegnum tár

Fátt jafnast á við kvöldstund í góðra vina hópi. Ekki verra þegar vertinn er listakokkur og ber eingöngu fram eðalvín. Ég verð nú samt að játa að ég er dálítið mikið þreytt í dag, ég er bara alveg hætt að þola sumbl og blaður fram eftir á kvöldin, dett helst út af upp úr tíu. Aldurinn?

Í dag hófst fasta dagskráin mín. Enginn skráði sig í gönguferð og þess vegna er ég heima að vinna í tölvunni. En það streyma inn bréf og fyrirspurnir fyrir næstu vikur svo ég brosi bara í gegnum tárin eins og hver önnur fegurðardrottning.

Sem minnir mig á að um daginn sá ég krýningu á einhverri japanskri stúlku sem var gerð að Ungfrú heimur eða geimur eða hvað veit ég. Hún skalf og titraði og reyndi að brosa en það gekk ekki neitt hjá blessuðu barninu, svo yfirkomin var hún af tilfinningum. Ég er sannfærð um að það var ekki eingöngu gleði, þær hljóta líka að vera dauðhræddar þegar þetta er tilkynnt.
Ég vorkenni alltaf svona fegurðardísum, eiginlega vorkenni ég þeim á nákvæmlega sama hátt og ég vorkenni prinsessum. Það er ekkert grín að þurfa að leika svona hlutverk, held ég. Ekki það að ég hafi nokkurn tímann þurft að óttast það, verandi ekki nema helmingur af lengdarstaðli fegurðardísar hefur umsóknum mínum um þátttöku í fegurðarsamkeppnum, módelkeppnum og gátuleikjum með prins í vinning, alltaf verið hafnað.

Ég vorkenni sjálfri mér og ykkur hinum líka dálítið í dag vegna niðurrifs Múrsins. Hvað á það að fyrirstilla?

Lifið í friði.