7.6.07

allt að verða vitlaust

Það er aldrei friður.
Í dag ætti ég að vera að fara í gegnum tölvupósta, taka til í öllu þessu flóði fyrirspurna og pantana svo ég fari nú ekki að klikka á einhverjum stefnumótum. Fékk hvílíka martröð í nótt um einmitt svoleiðis aðstæður. Fæ þannig mjög reglulega en hef, sjö, níu, þrettán, ekki enn lent í miklum vandræðum, a.m.k. ekki þegar ég hef skipulagt dæmið sjálf.
Ég var að vísu einu sinni send með hóp í lokaða Versali. Nóttina fyrir ferðina dreymdi mig að ég kom og höllin var lokuð en það dugði ekki til að ég færi og athugaði málið. Ég hlýddi stúlkunni sem hafði sett upp ferðina lokuð inni á kontór á Ísalandinu góða, í blindni. Lærði mikið af þessari hrottalegu lífsreynslu sem ég reddaði með því að hlaupa með tvo aðstoðarmenn út í búð og kaupa fullt, fullt af áfengi. Garðarnir voru jú opnir og veðrið hið besta. Það glaðnaði örlítið yfir hópnum við það að sitja í garðinum og skála, en ég fæ enn hjartslátt þegar ég hugsa um þetta.
En í staðinn fyrir að geta komið skipulagi á líf mitt sem forstjóri, ritari, símastúlka, sendill, innkaupastjóri, fararstjóri, bílstjóri og gjaldkeri, sit ég hér sveitt og þýði dómsskjöl sem ég skil ekki.
Ég er klikkuð. Vona að ég sé ekki líka að klikka.

Nú verð ég að minna mig reglulega á að taka EKKERT verkefni í júlí. EKKERT!

Lifið í friði.