27.8.06

Kárahnjúkavirkjun og trú

Ég er hætt að geta hugsað um þetta virkjunarmál allt saman. Hætt að botna almennilega í þessu. Ég er hrikalega illa að mér í öllu sem viðkemur að sjá og skilja HAG þjóðarinnar, þjóðarbúsins, heimsins, með orðið HAG í peningalegu tilliti.
Þannig finnst mér það hljóti að vera hagur heimsins (og þá um leið Íslands) að vernda náttúruna. En kannski ekki peningalegur hagur. Peningalegur hagur hlýtur að vera að framleiða, framleiða og framleiða og hvetja neytendur með öllum tilteknum ráðum til að neyta, njóta, þurfa, neyta meira, vilja stærra, meira, betra.
En náttúran er orðin verðmæti sem auðvelt er að selja, það sé ég mjög vel hér í Frakklandi sem er ofurbyggt og ofurræktað land, troðfullt af fólki sem leitar stöðugt að möguleikum til að komast í ósnerta náttúru.
Frakkar sem koma upp á hálendi Íslands eiga ekki orð. Þau trúa því ekki að til sé allt þetta flæmi án nokkurra hótela, veitingahúsa, búða og annars sem tilheyrir menningunni og daglegu lífi. Og að ekki sé búið að finna eitthvað notagildi, ræktun eða iðnað til að nýta svæðið til peningagróða. Ég veit um tvö dæmi þar sem Frakki fékk skelfingarkast, froðufelldi og öskraði og æpti og þurfti í öðru tilfellinu að fá þyrlu með lækni til að sprauta konu niður sem varð svo yfirkomin af tilfinningum í öllu þessu tómi að henni fannst lífnauðsynlegt að komast í hraðbanka NÚNA.
Þegar ekið er um hið fagra og gróna Suður-Frakkland er maður sjaldan meira en tíu mínútur milli þorpa og öruggt er að öll leiðin liggur gegnum ræktaða akra sem tilheyra einhverjum og eru hluti af lífsafkomu þeirra hinna sömu. Þessir akrar eru því augnayndi en harðbannað er að fara og leggjast í þá.
HAGkerfi peninganna fer illilega í taugarnar á mér og berst ég með öllum tiltækum ráðum gegn því að verða auglýsingagerviþarfagrýlunni að bráð. Það er alls ekki alltaf auðvelt, ég er líklega alveg ágætis neytandi og neyti ýmis konar óþarfa munaðarvöru án þess að blikna.
En ég er líka einhvers konar rómantíker, blómabarn, aflóga kommi eða hvað annað sem ég hef séð notað um "fólk eins og mig" í blöðum og á bloggum undanfarið. Ég trúi því að virkjunarframkvæmdir til stóriðju séu tímaskekkja og hægt sé að finna aðrar lausnir til að tryggja fólki örugga lífsafkomu. Ég trúi því að hægt sé að selja náttúruna þó það fari í taugarnar á mér að nota það orðalag. Ég get samt alls ekki reiknað út fyrir hvað mikið við getum selt hana, hvort meiri gróði sé af því en af virkjun og stóriðju. Ég get ekki borið fyrir mig nein almennileg rök, og alls ekki betri en þau sem t.d. Andri Snær Magnason setur fram í bókinni um Draumalandið. Í raun er þetta bara trú, eitthvað í litla vöðvanum þarna í vinstra brjósti og ekkert meira en það. Eitthvað sem mér bara FINNST.
Ég skil alveg fólkið sem talar með þessu, skil að þeim finnist við hin ekki skilja neitt. En mér virðist öll umræða komin í einhvers konar hnút og nú sé bara málið að vera í öðru hvoru trúfélaganna. MEÐ eða Á MÓTI virkjun og stóriðju. Stóriðjutrú eða náttúrutrú. Báðir hóparnir nota hræðsluáróður til að fá fylgismenn. Virkjunin brestur, fólkið flýr. Mér leiðist svona tal. Virkjunin brestur-umræðan er næstum nóg til að ég skrái mig úr trúfélaginu. En hvert á ég að leita? Því þó ég sé blómabarn er ég samt allt of meðvituð til að vera utan trúfélaga og án skoðana.

Lifið í friði.