25.1.06

Baskakórinn syngur afar fallega á sínu fína tungumáli sem er áreiðanlega í meiri útrýmingarhættu en okkar ástkæra ylhýra.
Þeir eru líka skemmtilegir menn og fagrir með afbrigðum og átti ég góða kvöldstund með þeim.
Sumir eru gamlir og gráir í nælonpeysum og slitnum buxum. Aðrir ungir og uppstrílaðir í teinótt jakkaföt eða nýjasta gallabuxnasniðið (eða ekki það nýjasta, hvað veit ég, þegar einhver sagði einhvern tímann í hneykslunarrómi við mig um annan að sá hefði verið í 501 sem ég átti þá að skilja að væri síðasta sort, gerði ég mér grein fyrir því að ég er dottin út úr gallabuxnatískunni).
En ég er nokkuð sannfærð um að það verði gríðarlega skemmtilegir og spennandi karlakóratónleikar í París 1. apríl nk.

Dóttir mín fór í læknisskoðun í morgun. Hún er rétt tæpur meter á hæð og skrifar nafnið sitt og fleiri stafi. Hún ruglar reyndar hvernig S á að snúa, finnst það flottara öfugt, segir hún. Sjónprófið kom ekki nógu vel út, hún þarf að fara til augnlæknis í almennilega skoðun. Hún teiknaði hring, kross og ferning á blað og gerði allar þær kúnstir sem fyrir hana voru lagðar. Karlinn sem hún teiknaði var í mjög löngum og támjóum skóm með hárið út í loftið. Hún þekkti allar gjörðir fólksins á myndunum þar til kom að síðustu myndinni: Kona að strauja. Þá strandaði litla dúllan, enda ekki nema von. Hér er að vísu til bæði straujárn (sem mér var gefið og hvar er það nú?) og straubretti sem ég fann úti á götu ef ég man rétt. En bæði eru pökkuð inn í plast og hafa verið notuð kannski tvisvar á heimilinu síðan við fluttum hingað og í bæði skiptin af gestkomandi.

Í gær reyndi maður að fremja sjálfsmorð í Frakklandi. Næsta víst er að einhverjir aðrir en þessi maður hafi reynt það og nokkuð líklegt að einhverjum hafi tekist ætlunarverkið. Þessi maður var ekki að gera þetta í fyrsta skiptið og hefur alltaf verið bjargað því hann vill það. Þessi maður, ásamt góðum hóp af öðru fólki, er mikið í fréttum þessa dagana sem píslarvottur óhugnalegra réttarmistaka þar sem fjöldi fólks var í fangelsi í 20 mánuði eða meira vegna kynferðisafbrota gegn börnum sem búið er að sýkna þau öll af í dag. Outreau málið er mjög skrýtið allt saman og væntanlega er íslensk pressa að fylgjast með þessu, þetta er a.m.k. í meira lagi áhugavert mál. Sýnir m.a. núna við vitnisburð fórnarlamba lygavefsins fyrir framan þingnefnd, hvernig lögregla hikar ekki við að pynda hér í Frakklandi. Þau voru öll talin ógurleg skrímsli og þess vegna mátti neita þeim um stóla, vatn og annað. En nú verð ég að hætta í miðri setningu svo til. Vildi bara benda á að það eru ekki alltaf "bara" sekir geðskjúklingar sem fremja sjálfsmorð eða reyna það.

Lifið í friði.